Stöðumat vegna móttöku nýrra nemenda af erlendum uppruna

Þann 16. október 2019 sóttu 104 kennarar og skólastjórnendur grunnskóla Reykjavíkur námskeið í fyrirlögn stöðumats að sænskri fyrirmynd. Námskeiðið var haldið í Hinu húsinu í Elliðarárdal.

Stöðumatið er hluti af vinnuramma um móttöku nýrra nemenda inn í íslenskt skólakerfi. Markmið stöðumatsins er að kortleggja styrkleika barnsins gegnum viðtöl og verkefni.

Gegnum stöðumatið gefur skólinn sér tíma til þess að afla dýrmætra upplýsinga um reynsluheim barnsins og tungumálabakgrunn ásamt því að kanna stöðu barnsins í lesskilningi og talnalæsi á sterkasta tungumáli barnsins, en í gegnum hefðbundið skólastarf getur tekið langan tíma að fá skýra mynd af stöðu barnsins í námi. Stöðumatið gefur skólanum innsýn í námsstöðu barnsins á sínu sterkasta tungumáli. Það byggir á þremur aðskildum viðtölum sem tekin eru eins fljótt og auðið er eftir komu barnsins.

Upplýsingar úr stöðumatinu nýtast skólunum til þess að skipuleggja stuðning og velja námsefni við hæfi á markvissan hátt og tryggja þannig að aðlögun að íslensku skólakerfi verði eins og best verði á kosið.