Áður en barnið kemur í bekkinn

Ritföng, stofan, pláss, stóll, bekkjarlistar, snagi, … allir litlu hlutirnir sem skipta samt svo miklu máli til þess að nemandi upplifi að gert sé ráð fyrir honum.

  • Segja hópnum frá komu nýs nemanda og setja fókusinn á það sem sameinar hópinn. Ræða um það hvernig við tökum á móti nýju fólki og hvernig við bjóðum einhvern velkominn.
  • Segja frá bakgrunni barnsins sem nemendahópurinn á auðvelt með að tengja við. Beina athyglinni að öllu sem sameinar.
  • Segja frá tungumálakunnáttu og kenna nemendum að aðstoða aðra við að læra íslensku. Sjá Unnið með málstefnu og íslenskusamlokuna.

  • Upplýsa foreldra um nýtt barn í bekknum og hvaða tungumál það kunni. Persónugreinanlegar upplýsingar má ekki senda, en almennar upplýsingar s.s. nafn barns, hvaðan barnið er að flytja og hvaða tungumál barnið talar eru almennt í lagi.
  • Hvetja foreldra til að styðja börn sín við að taka vel á móti nýja nemandanum.

Upplýsa aðra kennara og starfsfólk um nýjan nemanda.

Hvernig er hægt að stuðla að inngildingu?

  • Beina athyglinni ítrekað að því sem sameinar hópinn. Draga fram styrkleika, sameiginleg áhugamál, reynslu og aðstæður.
  • Forðast að setja nemandann í þá aðstöðu að eiga að segja frá einhverju sem hann tengist en þekkir kannski ekki af eigin raun. Dæmi: barn sem hefur grænlenskt vegabréf en hefur alltaf búið í Danmörku veit kannski ekki mikið um Grænland.
  • Gagnlegt getur verið að setja samnemendur í hlutverk þar sem tveir nemendur sinna hlutverki leiðsögunemenda í hverri viku. Þá gefst tækifæri til þess að fara reglulega yfir hlutverk leiðsögunemenda, minni hætta er á að móttökurnar verði yfirþyrmandi fyrir nýjan nemanda ásamt því að móttaka og aðlögun er lengra ferli. Þegar allir nemendur bekkjarins hafa fengið hlutverk hefur nýr nemandi fengið tækifæri til þess að kynnast öllum og aðlagast skólastarfinu.

Upplýsingar úr stöðumatinu þurfa að berast öllum kennurum barnsins svo unnt sé að skipuleggja kennslu og gera sannarlega ráð fyrir öllum nemendum bekkjarins í námi og starfi.

  • Í fyrsta viðtali stöðumatsins gefst einstakt tækifæri til þess að upplýsa foreldra nýja nemandans um ýmsa siði og venjur skólans ásamt því að ávarpa það sem kann að virka framandi fyrir nemandann og foreldra.
  • Fylgjast með tengslamyndun og upplýsa foreldra nýja nemandans um hvaða íþróttir/áhugamál nemendur bekkjarins iðka.
  • Senda skýrar og aðgengilegar upplýsingar um hvert viðfangsefni bekkjarins sé hverju sinni svo foreldrar geti stutt við nám barns síns.
  • Útskýra fyrir foreldrum til hvers sé ætlast af foreldrum þegar haldnir eru fundir, bekkjarkvöld, fræðsla o.fl. Að vera skólaforeldri getur verið afar ólíkt milli skólakerfa.
  • Gefa foreldrum upplýsingar um raunverulega stöðu barns í námi, áskoranir og tækifæri. Kynna fyrir foreldrum leiðir til þess að styðja börn sín í námi.
  • Barnið þarf líka að taka þátt í faggreinum með bekknum og finna að gert sé ráð fyrir sér í þeirri kennslu.
  • Við val á verkefnum er mjög mikilvægt að öll geti tekið þátt á sínum forsendum. Ef viðfangsefni bekkjarins er eldfjöll þá á nýji nemandinn ekki að vera í einhverju sér námsefni – heldur taka þátt í námi um eldfjöll á sínum forsendum.
    • Dæmi: Skoða myndefni og orð, teikna, skrifa, hlusta, rannsaka, byggja, smíða, leika, o.s.frv.
    • Tengja við fyrri þekkingu og reynslu. Eldfjöll eru t.d. ekki séríslenskt fyrirbæri.
    • Það er hægt að læra flókin orð og ný hugtök í tungumáli svo sem jarðskorpa og sprungusveimur þrátt fyrir að maður sé enn að læra einföld orð. Það er engin regla um hvaða orð eiga að lærast fyrst eða á hvaða tungumáli hugtök eiga að lærast.

Nýjir nemendur á Íslandi eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og allt skólasamfélagið ber sameiginlega ábyrgð á náminu. Það getur verið mikilvægt fyrir barnið að fá markvissa kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Samvinna námsgreinakennara og ÍSAT kennara er lykilatriði við
gerð námsáætlana, ákvarðana um framkvæmd náms og kennslu og leiðir í námsmati.

Öll börn eru jöfn segir í 2. grein Barnasáttmálans. Til þess að geta staðið vörð um réttindi barns er nauðsynlegt að verja tíma í að kynnast barninu og þörfum þess. Uppruni, tungumál, menning, trú, útlit, kyn, fötlun, félagsleg staða barns eða fjölskyldu barnsins mega aldrei koma í veg fyrir að barn fái notið þeirra réttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmála SÞ.

Stöðumat nýrra nemenda á Íslandi er öflugasta verkfærið sem við höfum til þess að kynnast barninu og þörfum þess ásamt því að sporna gegn skaðlegum staðalímyndum og mögulegum fordómum sem tengjast uppruna, tungumáli, menningu, trú, útliti, kyn, fötlun, félagslegri stöðu barnsins eða fjölskyldu þess. Stöðumatið styrkir tengsl skóla og heimilis.

Verkfæri þvert á tungumál

Aðgengilegt lestrarumhverfi (e. immersive reader) er í örri þróun. Þetta er viðbót í Office umhverfinu og hentar öllum nemendum sem eiga erfitt með að lesa og skilja lesmál.


Hér má nálgast leiðbeiningar frá Þóru í Háteigsskóla.

Velkomin – lærum tungumál er verkfæri á fimm tungumálum sem hægt er að nýta til að virkja nemendur í móttöku. Athugið að hljóðskrárnar virka aðeins á Safari og Edge vöfrum.

Velkomin