Áður en barnið kemur í bekkinn

Það þarf alltaf að undirbúa komu nýs nemanda vel þannig að hann finni að gert sé ráð fyrir honum frá fyrstu stund og námsframvindan verði farsæl. 

  • Finna til og merkja námsgögn, snaga, hillur og fleira. 
  • Endurskoða sætisskipan. 
  • Bæta nemendanum við á lista yfir afmælisdaga, hópa í list- og verkgreinum, sundi o.þ.h. 
  • Einföld sýnileg stundaskrá/dagsplan 

Það er spennandi en getur einnig verið kvíðavaldandi að byrja í nýjum bekk og finna nýja vini. Mikilvægt er að nemendur sameinist um að taka vel á móti nýjum bekkjarfélögum. 

Það þarf að ígrunda hvort breyta þurfi skipulagi kennslu á einhvern hátt fyrstu dagana og skipuleggja hvernig ferðir milli námsrýma, frímínútur og útivist verður háttað til að nýi nemandinn finni fyrir öryggi. 

Hugmynd 1 

  • Látið nemendur sitja í þriggja til fjögurra manna hópum. Þau ræða saman um hvernig hægt sé að láta nýjan bekkjarfélaga finna að hann sé velkominn. 
  • Hóparnir geta skrifað eða teiknað sín bestu ráð um hvernig hægt er að hjálpa nýjum bekkjarfélaga að kynnast nemendum bekkjarins. 
  • Hóparnir deila einu eða fleirum af sínum bestu ráðum með hinum. 
  • Hengið bestu ráðin upp á námsvegg í kennslustofunni.  Þegar nýr nemandi kemur næst í bekkinn er hægt að rifja upp og endurskoða. 

Hugmynd 2 

  • Hvað langar mig að segja öðrum um mig? 
  • Hvað langar mig að vita um aðra? 
  • Nemendur skrifa hugmyndir á post-it miða og hengja á tvö stór plaköt eða námsveggi. 

Almenn ráð

  • Gagnlegt er að nýta tækifærið þegar nýr nemandi kemur í bekkinn til þess að læra um hvernig tekið er á móti nýju fólki og hvernig er hægt að bjóða fólk velkomið.
  • Beinum athyglinni ávalt að því sem sameinar hópinn.
  • Segið frá bakgrunni barnsins sem nemendahópurinn á auðvelt með að tengja við.
  • Segja frá tungumálakunnáttu og kennið nemendum leiðir til þess að eiga samskipti þvert á tungumál og aðstoða aðra við að læra íslensku. Sjá Unnið með málstefnu og íslenskusamlokuna:

Námsfélagar eru almennt tveir og tveir nemendur sem valdir eru tilviljunarkennt, oftast til einnar viku í senn. Þeir eru sessunautar á tímabilinu og ræða saman í vel afmarkaðan tíma samkvæmt fyrirmælum kennara. Hlutverk námsfélaga er að ræða saman um námið, að skipuleggja saman og auka þannig í sameiningu gæði náms hvors annars (Nanna Kristin Christianssen, 2021). 

Þegar nýr nemandi kemur í bekkinn þarf að vera búið að æfa þessa aðferð í einhvern tíma. Kennari og nemendur ræða svo hvað námsfélagi þarf að hafa í huga þegar nýr nemandi sem er byrjandi í íslensku kemur í bekkinn. Hér er mikilvægt að vinna með málstefnu bekkjarins, hvernig við notum tungumálin okkar og mikilvægi þess að öll séu fyrirmynd í íslensku um leið og samskipti og velfarnaður nemenda sé tryggður. Fyrstu vikurnar getur verið gott að kennari velji námsfélaga fyrir nýja nemandann þó að hinir séu valdir af handahófi. 

Dæmi um viðmið:  

  • Sitjið upprétt 
  • Beinið athyglinni að þeim sem talar 
  • Kinkið kolli og brosið 
  • Kennið ný orð á íslensku 
  • Leggið ykkur fram við að aðstoða 

Móttökuviðtal og gátlisti um móttöku (tengill)

Upplýsa um rétt til túlkaþjónustu Hagnýtar upplýsingar um aðstoð túlka 

Tryggja þarf að boðleiðir milli skóla og heimilis séu opnar, virkar og skiljanlegar þannig að foreldrar geti alltaf haft samband við skólann og að skólinn geti ávalt verið í tengslum við heimilið. 

Upplýsa þarf foreldra allra í bekknum um að von sé á nýjum nemanda og hvernig nemendur ætla að taka á móti honum. Látið vita hvað nemandinn heitir og hvað hann vill láta kalla sig, hvaða tungumál hann talar og hvaðan hann er að koma. Leggið áherslu á styrkleika og hversu jákvætt það er að fá nýjan bekkjarfélaga. 

  • Persónugreinanlegar upplýsingar má ekki senda, en almennar upplýsingar s.s. nafn barns, hvaðan barnið er að flytja og hvaða tungumál barnið talar eru almennt í lagi.
  • Hvetið foreldra til að styðja börn sín við að taka vel á móti nýja nemandanum.

Upplýsa þarf allt starfsfólk skólans um að von sé á nýjum nemanda, hvað hann heitir, hvað hann vill láta kalla sig, hvaða tungumál hann talar og hvaðan hann er að koma. Segið frá því hvernig nemendur ætla að taka á móti honum, leggið áherslu á styrkleika og hversu jákvætt það er að fá nýjan bekkjarfélaga. Minnið á málstefnu skólans og að við berum sameiginlega ábyrgð á námi og velferð allra nemenda 

Fræðsla og kennsluefni um fólk á flótta. Kennarahandbók UNHCR. 

Hér má nálgast bækling um sálrænan stuðning við börn  – eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. 

Áfallamiðuð kennslufræði er aðferð sem miðar að því að koma til móts við þarfir barna sem eiga sér áfallasögu, að skólasamfélagið skilji hvað liggur að baki þeirra andlegu, félagslegu, tilfinningalegu og námslegu erfiðleika sem liggja að baki þeirra barna sem takast á við áföll. Starfsfólk lærir að takast á við áfallaviðbrögð á nýjan hátt. Þegar börn komast í tilfinningalegt uppnám eða bregðast við aðstæðum á óæskilegan máta heldur starfsmaðurinn ró sinni í stað þess að aga barnið, setja því skilyrði og hömlur. Hann reynir að skilja og finna út hvað það var sem olli viðbrögðunum. Starfsfólk ætti að temja sér að horfa á barnið í gegnum áfallagleraugu. Ekki einungis á þau börn sem hafa verið á flótta heldur öll börn því rannsóknir sýna að stór hluti barna upplifa einhverskonar áföll og því fleiri áföll sem einstaklingur lendir í  því líklegra er að þau hafi líkamleg og andleg áhrif á hann (https://sites.google.com/gskolar.is/bmrs/%C3%A1fallami%C3%B0u%C3%B0-n%C3%A1lgun/hlutverk-kennara). 

Þegar nemandinn er byrjaður í skólanum

  • Reynið markvisst að beina athyglinni því sem sameinar hópinn. Dragið fram styrkleika, sameiginleg áhugamál, reynslu og aðstæður.
  • Forðast að setja nemandann í þá aðstöðu að eiga að segja frá einhverju sem hann tengist en þekkir kannski ekki af eigin raun. Dæmi: barn sem hefur grænlenskt vegabréf en hefur alltaf búið í Danmörku veit kannski ekki mikið um Grænland.
  • Gagnlegt getur verið að setja samnemendur í hlutverk þar sem tveir nemendur sinna hlutverki leiðsögunemenda í hverri viku. Þá gefst tækifæri til þess að fara reglulega yfir hlutverk leiðsögunemenda, minni hætta er á að móttökurnar verði yfirþyrmandi fyrir nýjan nemanda ásamt því að móttaka og aðlögun er lengra ferli. Þegar allir nemendur bekkjarins hafa fengið hlutverk hefur nýr nemandi fengið tækifæri til þess að kynnast öllum og aðlagast skólastarfinu.

Leikir sem allir nemendur geta tekið þátt í

Töfrakista tungumálanna 

Hugmynd

Nemendur útbúa í sameiningu námsvegg með algengum frösum á íslensku og myndum til að auðvelda nýja nemandanum fyrstu skrefin. T.d. Gaman að sjá þig, viltu leika, viltu koma með okkur, það eru frímínútur, eigum við að vera samferða, viltu aðstoð… 

Upplýsingar úr stöðumatinu þurfa að berast öllum kennurum barnsins svo unnt sé að skipuleggja kennslu og gera sannarlega ráð fyrir öllum nemendum bekkjarins í námi og starfi.

Foreldrar eiga rétt á skiljanlegum upplýsingum um framvindu náms og velferð barna sinna. 

Leiðbeiningarskylda skóla gagnvart fjölskyldum verður ríkari eftir því sem félagsleg staða fjölskyldu er flóknari og forsendur fólks til gagnsærrar og tæmandi upplýsingaöflunar verða stopulli. Menningarmunur, tungumál og læsi eru allt dæmi um mögulegar hindranir fólks í að afla sér réttra upplýsinga. Hægt er að óska eftir fræðslu Brúarsmiða hjá Miðju máls og læsis. 

Alltaf þarf að ganga úr skugga um að boðleiðir milli skóla og heimilis séu opnar, virkar og skiljanlegar. 

  • Í fyrsta viðtali stöðumatsins gefst einstakt tækifæri til þess að upplýsa foreldra nýja nemandans um ýmsa siði og venjur skólans ásamt því að ávarpa það sem kann að virka framandi fyrir nemandann og foreldra.
  • Fylgjast með tengslamyndun og upplýsa foreldra nýja nemandans um hvaða íþróttir/áhugamál nemendur bekkjarins iðka.
  • Senda skýrar og aðgengilegar upplýsingar um hvert viðfangsefni bekkjarins sé hverju sinni svo foreldrar geti stutt við nám barns síns.
  • Útskýra fyrir foreldrum til hvers sé ætlast af foreldrum þegar haldnir eru fundir, bekkjarkvöld, fræðsla o.fl. Að vera skólaforeldri getur verið afar ólíkt milli skólakerfa.
  • Gefa foreldrum upplýsingar um raunverulega stöðu barns í námi, áskoranir og tækifæri. Kynna fyrir foreldrum leiðir til þess að styðja börn sín í námi.

Þátttaka í öllum námsgreinum 

Í Aðalnámskrá grunnskóla stendur að það eigi að gera námsáætlun byggða á styrkleikum barnsins í öllum námsgreinum. Ekki bara íslensku sem öðru tungumáli heldur öllum námsgreinum. Það er mikilvægt að allir nemendur upplifi að gerðar séu væntingar til þeirra og þeir fái stuðning við hæfi. Til þess að nám í öllum námsgreinum verði markvisst þarf að hafa eftirfarandi atriði í huga. 

Allir kennarar nemandans vinna saman 

Samvinna við foreldra/heimili 

Allir nemendur þurfa að upplifa að þeir tilheyri og gert sé ráð fyrir þeim 

Skammtímamarkmið, námsmarkmið eru endurskoðuð reglulega og stutt er við tengslamyndun barns. 

Langtímamarkmið 

Að ná góðum tökum á námsorðaforða í íslensku 

Að geta lesið sér til gagns  

Að geta tekið virkan þátt á öllum sviðum samfélagsins 

Mikilvægt er að barnið finni að gert sé ráð fyrir sér í kennslu allra faggreina og fyrirkomulag námsins sé með þeim hætti að námsmarkmið hverrar kennslustundar séu skýr. Lykilatriði er að nemendur geti tekið þátt í viðfangsefni bekkjarins á sínum forsendum. Ef viðfangsefni bekkjarins er t.d. eldfjöll þá á nýji nemandinn ekki að vera í einhverju sér námsefni – heldur taka þátt í námi um eldfjöll.

    • Dæmi: Skoða myndefni og orð, teikna, skrifa, hlusta, rannsaka, byggja, smíða, leika, o.s.frv.
    • Tengja við fyrri þekkingu og reynslu. Eldfjöll eru t.d. ekki séríslenskt fyrirbæri.
    • Það er hægt að læra flókin orð og ný hugtök í tungumáli svo sem jarðskorpa og sprungusveimur þrátt fyrir að maður sé enn að læra einföld orð. Það er engin regla um hvaða orð eiga að lærast fyrst eða á hvaða tungumáli hugtök eiga að lærast.

ÍSAT eða íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir byrjendur í íslensku fyrstu tvö til fjögur árin á Íslandi Sjá kafla 19.3 í Aðalnámskrá grunnskóla. Ábyrgð á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli er sameiginlegt verkefni allra sem koma með einhverjum hætti að námi barnsins. 

Nýjir nemendur á Íslandi eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og allt skólasamfélagið ber sameiginlega ábyrgð á náminu. Það getur verið mikilvægt fyrir barnið að fá markvissa kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Samvinna námsgreinakennara og ÍSAT kennara er lykilatriði við
gerð námsáætlana, ákvarðana um framkvæmd náms og kennslu og leiðir í námsmati.

Öll börn eru jöfn segir í 2. grein Barnasáttmálans. Til þess að geta staðið vörð um réttindi barns er nauðsynlegt að verja tíma í að kynnast barninu og þörfum þess. Uppruni, tungumál, menning, trú, útlit, kyn, fötlun, félagsleg staða barns eða fjölskyldu barnsins mega aldrei koma í veg fyrir að barn fái notið þeirra réttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmála SÞ.

Stöðumat nýrra nemenda á Íslandi er öflugasta verkfærið sem við höfum til þess að kynnast barninu og þörfum þess ásamt því að sporna gegn skaðlegum staðalímyndum og mögulegum fordómum sem tengjast uppruna, tungumáli, menningu, trú, útliti, kyn, fötlun, félagslegri stöðu barnsins eða fjölskyldu þess. Stöðumatið styrkir tengsl skóla og heimilis.

Verkfæri þvert á tungumál

Aðgengilegt lestrarumhverfi (e. immersive reader) er í örri þróun. Þetta er viðbót í Office umhverfinu og hentar öllum nemendum sem eiga erfitt með að lesa og skilja lesmál.


Hér má nálgast leiðbeiningar frá Þóru í Háteigsskóla.

Velkomin – lærum tungumál er verkfæri á fimm tungumálum sem hægt er að nýta til að virkja nemendur í móttöku. Athugið að hljóðskrárnar virka aðeins á Safari og Edge vöfrum.

Velkomin