Algengar spurningar og svör

Í kafla 7.13 í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2021 stendur:
Leggja skal fyrir stöðumat á þessum þáttum á sterkasta tungumáli nemandans. Í móttökuviðtali skal lögð áhersla á heildræna móttöku nemenda og foreldra. Þar gefst nemanda og foreldrum tækifæri til að upplýsa skólann um þarfir, menningu og stöðu nemandans. Námsáætlun skal byggð á niðurstöðum þeirra upplýsinga og stöðumatsins.

Málheimur barnsins
Tungumálakunnátta
Fyrra nám
Hvort/hve lengi barnið hefur verið í skóla
Hvaða námsgreinar barnið lærði
Hvernig kennsla fór fram
Hlutverk foreldra í fyrra skólakerfi
Áhugamál barnsins
Væntingar til náms

Lesfimi
Lesskilningur
Málskilningur
Stafaþekking
Lestraráhugi
Námstækni
Læsisreynsla
Ritunarreynsla
Tækniþekking

Talnaskilningur
Rökhugsun
Hvernig barnið leysir úr þrautum
Hugtakaskilningur í stærðfræði

Stærðfræðiþekking

Á vef Menntamálastofnunar má nálgast öll gögn stöðumatsins á íslensku. 

Miðja máls og læsis hefur tekið saman allt efni stöðumatsins og sett inn á padlet-vegg ásamt safni tengds efnis.

Allt efni stöðumats

Allt efni stöðumatsins

Stöðumatið er lagt fyrir nemendur til viðbótar móttökuviðtali. Ekki er mælt með því að blanda stöðumati við móttökuviðtal þar sem áherslur og markmið viðtalanna eru gjörólík. Í móttökuviðtali eru fjölskyldur að taka við miklu magni af nauðsynlegum og hagnýtum upplýsingum um skólann, skólastarfið og nærumhverfið. Móttökuviðtalið er einnig nýtt til skráningar á mikilvægum upplýsingum sem varða velferð og heilsu barnsins.

Í stöðumatinu er markmiðið að afla upplýsinga um reynslu barnsins og styrkleika með það fyrir augum að geta mætt barninu í námi á forsendum barnsins. Slíkt krefst ráðrúms til þess að geta átt afslöppuð samskipti við barn og foreldra. Stöðumatið fer alltaf fram á sterkasta tungumáli barnsins með aðstoð túlks. Nemendur koma inn í skólann með afar ólíka skólareynslu. Sumir kunna nú þegar að álykta út frá flóknum upplýsingum úr fræðitexta á meðan aðrir eru enn að stíga sín allra fyrstu skref í lestri. Reynsla af námi getur verið mjög fjölbreytt og stöðumatið er því hannað bæði með breitt aldursbil barna í huga og að börn geti haft ólíkar forsendur og viðhorf til náms.

Upplýsingar úr fyrirlögn matstækisins eru hannaðar til að draga fram styrkleika barnsins, kunnáttu og reynslu. Þær upplýsingar reynast mikilvægar við val á námsefni og kennsluaðferðum þannig að námið og félagsleg aðlögun barnsins í skólanum gangi sem allra best.

Stöðumat nýrra nemenda af erlendum uppruna er ekki staðlað próf, heldur viðtalsrammi til þess að auðvelda skólanum að kynnast barninu og styrkleikum þess og reynsluheimi. Stöðumatið býður upp á að spyrja betur út í upplýsingar sem kunna að koma fram í viðtölunum, sem eru þrjú talsins.

  • Viðtal um bakgrunn, reynslu og væntingar
  • Læsisverkefni og viðtal um læsisreynslu
  • Talnaskilningsverkefni (viðtal) eða stærðfræðihefti

Öll viðtölin fara fram með aðstoð túlks eða fjöltyngdra starfsmanna skólanna. Tryggja þarf að sá sem túlkar viðtalið fái skýrar upplýsingar um tilgang og markmið viðtalanna.

Í fyrsta viðtali mæta foreldrar með barninu. Í því er rætt um tungumál, fyrri skólagöngu, reynslu, áhugamál og væntingar.

Annað viðtalið aflar þekkingar um læsisreynslu barnsins ásamt lestrar- og læsisfærni. Sá hluti byggir á lestri texta á sterkasta tungumáli barnsins. Þar sem stöðumatið hefur verið þýtt á 39 tungumál og nær það til barna með afar fjölbreyttan tungumálabakgrunn.

Þriðja viðtalið kannar talnaskilning barnsins og byggir á hlutbundnum verkefnum sem reyna á rökhugsun, talnaskilning og hæfni nemandans til þess að beita aðferðum stærðfræðinnar í raunverulegum aðstæðum. Talnaskilningshlutinn er þyngdarskiptur í verkefni fyrir eldri og yngri nemendur.

Stöðumat í talnaskilningi hentar yngri börnum og börnum með rofna skólagöngu. Ef börn hafa samfellda skólagöngu og hafa lært stærðfræði sem námsgrein gæti hentað betur að leggja fyrir þau stærðfræðihefti, sem til eru á fjölmörgum tungumálum.

Stærðfræðihefti henta börnum með samfellda skólagöngu sem hafa lært stærðfræði sem námsgrein. Til þess að hægt sé að leggja þau fyrir nemendur er nauðsynlegt að þeir þekki tölustafi og kunni að lesa og skrifa.

Eitt hefti er ætlað 1.-3. bekk. Þar er talnaskilningur, talnanotkun og lausnaleit könnuð.

Fyrir 4.-10. bekk eru fjögur aldursskipt hefti.

  • Talnaskilingur og talnanotkun
  • Líkindi og tölfræði
  • Algebra
  • Rúmfræði

Heftin eru lögð fyrir á skólatíma. Enginn tímatakmörk eru á fyrirlögninni en mikilvægt er að nemendur leysi sjálf úr heftunum án aðstoðar foreldra.

Þetta er eini hluti stöðumatsins sem fer fram án túlks.

Í Aðalnámskrá grunnskóla stendur að það eigi að gera námsáætlun byggða á styrkleikum barnsins í öllum námsgreinum. Ekki bara íslensku sem öðru tungumáli heldur öllum námsgreinum.

Mikilvægt er að hafa tvennt í huga við skipulag námsins.

  1. Allt starfsfólk skólans ber ábyrgð á kennslu íslensku sem annars máls.
  2. Íslenska sem annað mál hefur þá sérstöðu að í henni eru engin aldurstengd viðmið. Kennsla er skipulögð út frá fyrri þekkingu barns, áhuga og styrkleikum.

Mikilvægt er að allt starfsfólk sem kemur að námi barnsins fái upplýsingar um stöðu barnsins og að innan skólans eigi sér stað virkt samtal um leiðir til þess að styðja markvisst við nýkomna nemendur.

Íþrótta-, sund-, list- og verkgreinakennarar njóta þeirra forréttinda að geta tengt orðaforða í íslensku beint við reynsluheim barnsins þar sem unnið er með áþreifanlega hluti og verklegar athafnir. Lesgreinakennarar þurfa að gera sérstaklega ráð fyrir nemendum sem eru styttra komnir í íslenskunámi í bekkjarkennslu og skipuleggja kennslu þannig að allir geti notið sín. Niðurstöður úr stöðumati nýrra nemenda af erlendum uppruna eiga að styðja við ákvarðanatöku um val á kennslufyrirkomulagi og stuðningsefni sem og forgangsröðun verkefna. Almenn umræða kennara, starfsmanna og nemenda um málumhverfi skólans, meðvitund um málnotkun og umræða um viðhorf til tungumála og tungumálanotkunar styður við jákvæða menningu um tungumál og samskipti.

Stöðumatið er samið af sænskum menntamálayfirvöldum. Þar er stöðumatið skylda og notað á þeim skólastigum sem ná yfir skólaskyldualdur. Stöðumatið nær til nemenda frá 7 til 16 ára og gerir ráð fyrir breiðu bili þekkingar, sem og börnum sem þurfa sérstakan stuðning í námi. Því er efni stöðumatsins yfirgripsmikið til að hægt sé að meta nemendur á ólíkum aldri, með afar ólíka skólagöngu og reynslu að baki.

Í úttekt OECD á sænsku menntakerfi er sérstaklega fjallað um matstækið og styrkleikar og veikleikar þess settir í brennidepil. Þar kemur fram að þrátt fyrir að námsíhlutun nemenda sé byggð á þeim gögnum sem aflað er gegnum stöðumatið við komuna til landsins og einstaklingsáætlanir byggi á fyrri kunnáttu, reynslu barnsins og þörfum, þá megi bæta langtíma eftirfylgd nýrra nemenda af erlendum uppruna, sérstaklega með tilliti til tungumálanáms sænsku sem annars máls. Rétt er að taka mið af því við innleiðingu stöðumatsins í borginni og huga sérstaklega að framförum nýrra nemenda af erlendum uppruna í íslensku.

Í sömu skýrslu kemur fram að hvetja þurfi fjölskyldur til að tileinka sér tungumálið svo þær séu færar um að styðja við tungumálafærni og hvernig börnin aðlagast samfélaginu. Áhugi og stuðningur fjölskyldu á nýju tungumáli styður við tungumálanám og orðaforða ásamt því að hlúa að námi og aðlögun í nýju samfélagi. Á Íslandi er enn ekki boðið upp á gjaldfrjáls íslenskunámskeið fyrir innflytjendur og þrátt fyrir að málstefnurnar, Íslenska til alls, og málstefna Reykjavíkurborgar ítreki mikilvægi þess að allir séu íslenskar málfyrirmyndir, þá eru fáir sem gefa sér tíma til samskipta á íslensku við innflytjendur.

Kennsluhættir allra námsgreina þurfa að styðja við íslenska máltöku. Í stuttu máli felast þeir í natni við ríkt og skemmtilegt málumhverfi þar sem borin er virðing fyrir öllum, sama hvaða bakgrunn þeir hafa. Það vill svo skemmtilega til að slíkt málumhverfi nýtist öllum nemendum í þágu orðaforða, mál- og lesskilnings. Allt sem styður við skilning nemenda á tungumálinu s.s. sjónrænar stoðir, leikræn tjáning, skýrt mál og að gefinn sé tími til samtala, ásamt markvissri þrotlausri orðaforðavinnu gefur nemendum aukin tækifæri til þess að byggja upp þekkingu á tungumálinu og notkun þess.

Á vefsíðu sænska menntamálaráðuneytisins er að finna ýmis viðbótargögn með stöðumatinu ásamt kennslumyndböndum sem gagnlegt er að kynna sér. Vinsamlegast athugið að ekki er hægt að nota þýddu foreldrabréfin þar sem ítrekað er vísað í sænskt skólakerfi í textanum.

Þrjú sveitarfélög hafa haft frumkvæði að þýðingu og aðlögun stöðumats að sænskri fyrirmynd yfir á íslensku; Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær. Efnið er nú aðgengilegt á vef Menntamálastofnunar. Skólar í Reykjavík geta haft samband við Miðju máls og læsis vegna alls sem tengist fyrirlögn og úrvinnslu stöðumatsins. Einnig má sækja ráðgjöf til Miðju máls og læsis sem nýtist skólanum í tengslum við móttöku og stuðning við nýja nemendur.

Öllu efni stöðumatsins hefur verið safnað saman á einn stað (padlet-veggur)

Allt efni stöðumats