Margt úr Málstefnu Íslands á beint erindi inn í frístundastarf
Íslenska á alls staðar að vera sýnileg á opinberum vettvangi og upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku. Þá er mikilvægt að hafa hugfast að málið er öflugt valdatæki sem ber að beita af varúð. Því ætti ekki að beita til að gefa til kynna yfirburði eða undirskipun fólks eftir stétt þess og stöðu.
Jafnræði er að
- íslenska víki ekki fyrir ensku eða öðrum tungumálum heldur sé alltaf fyrsta málið og mest áberandi þótt upplýsingar á öðrum málum fylgi,
- allir landsmenn hafi jafnan aðgang að upplýsingum á íslensku og eftir atvikum á öðrum málum að auki,
- allt fólk sem talar íslensku hafi rödd, jafnvel þótt það hafi ekki full tök á málinu og notkun þess,
- dæma ekki orðræðu annarra út frá málfari.
Jafnrétti er að
- bera virðingu fyrir málnotkun allra sem tala íslensku og gæta þess að málnotkun sé ekki útilokandi
- nota orð og orðfæri um mismunandi þjóðfélagshópa sem fólk í þeim hópum kýs sjálft.
Fjölmenningarlegt samfélag
- viðurkennir rétt fólks sem ekki hefur náð tökum á íslensku til að tjá sig á öllum hugsanlegum vettvangi,
- sér íbúum sem ekki hafa náð tökum á íslensku fyrir nauðsynlegum opinberum upplýsingum á móðurmáli þeirra eða öðru tungumáli sem þeir skilja og tryggir þeim þjónustu túlka þegar þess er þörf,
- gerir fólki sem hefur íslensku ekki að móðurmáli kleift að sækja námskeið í íslensku máli, sögu og menningu í vinnutíma sínum.
Spurt og svarað um málstefnur
Hvað er málstefna?
Alls staðar þar sem tungumál eru notuð, verða til skráðar eða óskráðar reglur eða menning um tungumálanotkunina. Þessar reglur er það sem átt er við þegar rætt er um málstefnu.
Til þess að komast að sannri málstefnu samfélags er nauðsynlegt að skoða hvaða hugmyndir ríkja um tungumálið og hvernig það er notað, fremur en hvaða boð og bönn gilda um tungumálanotkun.
Af hverju á að vinna með málstefnur í frístundastarfi?
Í aðalnámskrá grunnskóla, kafla 7.14 Fjöltyngi segir:
„Æskilegt er að skólar og frístundaheimili móti sér tungumálastefnu sem leiðarljós fyrir starfsfólk og nemendur í daglegu starfi og samskiptum. Taka skal mið af núgildandi lögum, stefnum, aðalnámskrám og alþjóðlegum skuldbindingum. Við mótun tungumálastefnu er mikilvægt að starfsfólk ígrundi í sameiningu hvernig unnið er með fjölbreytt tungumál og komi sér saman um þær áherslur sem eiga að vera ríkjandi. Í tungumálastefnu þarf að koma fram með hvaða hætti er unnið með tungumál í samskiptum og daglegu starfi og hvaða leiðir eru nýttar til að nýta tungumálaforða nemenda sem best ásamt því að virkja og viðhalda áhuga allra nemenda á fjöltyngi.“
Snjalltækjanotkun barna og unglinga hefur aukist mikið í takt við almenna og útbreidda notkun á snjalltækjum. Ætla má að mikilvægi skipulags frístundastarfs hafi aldrei verið meira í tengslum við félagsleg samskipti og máluppeldi barna og unglinga. Því er mikilvægt að allt starfsfólk í frístundastarfi sé meðvitað um eigin viðhorf til tungumála og eigin málnotkun.
Hvernig á að vinna málstefnu?
Til þess að málstefnuvinna sé árangursrík er nauðsynlegt að verja tíma og orku í að rýna málumhverfi, málnotkun og samskipti í frístundastarfinu. Lykilatriði er að halda til haga því sem vel er gert og kortleggja áskoranir í starfinu eða þau atriði sem ekki ríkir eining um. Nauðsynlegt er að eiga samtal þar sem öll geta tekið virkan þátt og hafa raunveruleg tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum.
Nauðsynlegt er að hafa til hliðsjónar þau lög, reglur og stefnur sem gilda um frístundastarf Reykjavíkurborgar í tengslum við málumhverfi og samskipti.
Af hverju á frístundastarfið að vera á íslensku?
Málstefna Reykjavíkur, 2017
Starfsfólk Reykjavíkurborgar skal nota íslensku í störfum sínum og stjórnsýslu nema þar sem aðstæður krefjast þess að það noti önnur tungumál, t.d. í ráðgjöf við fólk með annað móðurmál en íslensku. Allar upplýsingar um þjónustu borgarinnar, útgefið efni, fundargerðir og önnur gögn, eru á vandaðri, skýrri og auðskiljanlegri íslensku.
Frístundastarfið er í einstakri aðstöðu til þess að styðja við máltöku barna og unglinga gegnum óformlegt nám og reynslunám. Það eru mikilvæg óyrt skilaboð sem við sendum til allra sem alast upp á Íslandi um að þau tilheyri í tungumálinu okkar með því að bjóða þeim stöðugt og sífellt upp á íslensku á jákvæðum nótum.
Hvernig er hægt að styðja við íslensku í samskiptum?
Það er nauðsynlegt að gera ráð fyrir öllum í frístundastarfinu, bæði börnum og fullorðnum. Það gæti krafist þess að áhersla sé lögð á óhefðbundna tjáningu og leiðir til þess að eiga samskipti þvert á tungumál. Ein aðferð til þess að styðja við íslensku í samskiptum er að allt starfsfólk þekki „íslenskuborgarann“ eða „íslenskusamlokuna“.
Hvað ef fólk skilur ekki íslensku?
Almenn samskipti byggja á miklu meira en bara orðum. Þannig er hægt að eiga samskipti og skilja fullkomlega til hvers er ætlast – án þess að skilja eitt einasta orð. Myndin hér fyrir neðan er samantekt á rannsóknum á því hvað ræður því hvernig fólk skilur hvert annað í almennum samskiptum.
Hvað með upplýsingar um frístundastarfið?
Íslensk málstefna 2021-2030
Íslenska á alls staðar að vera sýnileg á opinberum vettvangi og upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku. Þá er mikilvægt að hafa hugfast að málið er öflugt valdatæki sem ber að beita af varúð. Því ætti ekki að beita til að gefa til kynna yfirburði eða undirskipun fólks eftir stétt þess og stöðu.
Það má s.s. nota fleiri tungumál með íslensku til þess að tryggja að upplýsingar komist til skila – en það má ekki nota önnur tungumál í staðinn fyrir íslensku og það má aldrei senda út upplýsingar á öðru tungumáli en íslensku nema íslenska sé í sama skjali.
Varðandi þýðingar
Hafa þarf í huga að með því að þýða skilaboð yfir á örfá erlend tungumál er verið að gera heimatungumálum barna mishátt undir höfði. Því er verið að ýja að því að sum tungumál séu merkilegri en önnur.
Einnig þarf að hafa í huga að hluti foreldra getur átt erfitt með að lesa texta vegna ólíkra aðstæðna s.s. veikinda, fötlunar, lestrarerfiðleika o.fl. Innanmálsþýðing – þar sem íslenska er þýdd yfir á auðlesna íslensku með skipulegum hætti gæti náð til þeirra hópa. Auðlesið mál getur líka gagnast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku tungumáli.
MML leggur til að þegar skilaboð frá frístundastarfinu séu alltaf þýdd yfir á auðlesið mál – áður en farið er í þýðingar á erlend tungumál. Mögulega eru þýðingar á erlend tungumál óþarfi.
Aðgengi þýðir að búa til samfélag þar sem það er auðvelt fyrir okkur öll að taka þátt.
Það er til dæmis:
- Punktaletur fyrir fólk sem sér ekki
- Lyftur fyrir fólk sem notar hjólastól
- Upplýsingar á máli sem er auðvelt að skilja
Hvað stendur í málstefnu Reykjavíkur?
,,Vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, er lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.“
Málstefnan gildir á öllum starfsstöðum Reykjavíkurborgar og á starfsfólk að taka mið af henni í störfum sínum og samskiptum.
„Starfsfólk Reykjavíkurborgar skal nota íslensku í störfum sínum og stjórnsýslu nema þar sem aðstæður krefjast þess að það noti önnur tungumál, t.d. í ráðgjöf við fólk með annað móðurmál en íslensku.”
Allar upplýsingar um þjónustu borgarinnar, útgefið efni, fundargerðir og önnur gögn, eru á vandaðri, skýrri og auðskiljanlegri íslensku.“
„Allt efni á vegum borgarinnar, sem gefið er út á erlendum tungumálum, skal jafnframt vera til á íslensku. Þetta á meðal annars við um bæklinga um þjónustu borgarinnar fyrir innflytjendur. Æskilegt er að birta erlendan texta samhliða íslenskum texta til að auðvelda gagnkvæman skilning í þjónustu og tilgreina með þjóðfána eða í texta á hvaða tungumáli efnið er.“
Það þýðir að öll samskipti við foreldra ættu að fara fram á íslensku samhliða öðrum tungumálum og ekki á að senda út foreldrabréf eða upplýsingar á öðrum tungumálum nema íslenska fylgi með samhliða erlenda textanum. Ef misræmi er milli tungumála, þá gildir íslenska útgáfan.