Algengar spurningar og svör
Hvenær á að panta túlk?
Þegar foreldrar tala ekki íslensku er skólanum skylt að tryggja túlkun.
Almenna reglan er sú að við pöntum túlk þegar tungumálakunnátta kemur í veg fyrir upplýsingaflæði milli heimilis og skóla.
Spyrja þarf foreldra hvort þeir þurfi túlk og hvaða tungumáli eða mállýsku þeir skilja best. Hafa ber í huga að túlkurinn er ekki síður mikilvægur fyrir kennara en foreldra.
- Ef foreldri óskar eftir túlki vegna tungumálahindrana þá á skólinn að verða við þeirri ósk
- Túlkar eru pantaðir vegna viðtala eða fræðslu á vegum skólans, ekki er pantaður túlkur fyrir skemmtanir eða bekkjarkvöld nema til standi að ræða sérstök mál
- Börn eða aðrir fjölskyldumeðlimir ættu ekki að vera í hlutverki túlks
Þessar leiðbeiningar eiga líka við þó aðeins eitt foreldri þurfi túlk. Búsetulengd á Íslandi breytir engu um rétt til túlkunar. Það er hagur barnsins að allir sem koma að námi barnsins fái nauðsynlegar upplýsingar og séu virkir þátttakendur í samstarf um nám barnsins.
Hver er munurinn á túlki og brúarsmiði
Hlutverk túlka og brúarsmiða er ekki það sama. Á meðan túlkar mega alls ekki breyta, sleppa eða bæta við upplýsingum í viðtölum eiga brúarsmiðir að veita viðbótarupplýsingar um íslenskt skólakerfi, tungumál og menningu. Þannig er brúarsmiður virkur þátttakandi í viðtali, bætir við upplýsingar beggja aðila og setur í samhengi eftir þörfum.
Ráðgjöf brúarsmiða byggir á þekkingu á íslensku skólakerfi ásamt þekkingu á tungumáli og menningarheim fjölskyldna.
Hlutverk brúarsmiða er að tryggja jafnræði í þjónustu við börn og fjölskyldur af erlendum uppruna, tryggja aðgengi að upplýsingum, fyrirbyggja misskilning og síðast en ekki síst að auka menningarnæmi í skólastarfi.
Fullvissið ykkur um á hvaða tungumáli og mállýsku foreldrar óska eftir að fá upplýsingar
Best er að spyrja viðmælendur hvaða tungumál þeir kjósi að fá upplýsingar á. Nauðsynlegt er að hafa í huga að tungumál geta verið hápólitísk, sums staðar í heiminum eru tungumál minnihlutahópa bönnuð af yfirvöldum. Gott ráð er að fletta upp viðkomandi tungumáli og álitaefnum þeim tengdum. Við bendum sérstaklega á vef Þýðenda án landamæra TWB en þar hefur verið safnað saman miklum og gagnlegum upplýsingum um mörg málsvæði.
Skýringarkort af mállýskum arabísku og helstu málsvæðum þeirra
- Sum tungumál spanna mjög stór málsvæði með mörgum ólíkum mállýskum. Besta dæmið um það er arabíska, sem er töluð í 23 löndum. Mállýskur breytast mikið milli svæða og þannig geta arabískumælandi átt í mestu erfiðleikum með að skilja hvern annan. Af þeirri ástæðu er ekki nóg að panta túlk á arabísku, túlkurinn þarf að koma frá eða hafa búið á svipuðu landsvæði. Sjá einnig einblöðunga frá TWB um arabísku, kúrdísku og persnesku (farsi/dari).
- Sum tungumál eru áþekk en ekki eins. Dæmi um það eru úkraínska og rússneska eða króatíska og serbneska. Svör um líkindi eða sérstöðu tungumálanna gætu verið mjög ólík eftir því hvern maður spyr. Af þeirri ástæðu er ekki heppilegt að treysta aðeins á svör túlks um líkindi tungumálanna.
Hvað ef foreldrar tala ekki sama tungumál?
Í Grunnskólalögum kemur skýrt fram að foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna, styðja við börn sín og hafa gott samráð við skólann. Þegar foreldrar tala ekki íslensku er skólanum skylt að tryggja túlkun. Það á líka við þó aðeins eitt foreldri tali ekki íslensku.
Almennir fundir
Oftast er hægt að halda fundi með einum túlki sem túlkar yfir á samskiptamál heimilis. Rétt er að hafa í huga að þó tungumál sé viðkomandi tamt í daglegu lífi og starfi er ekkert víst að tjáning og skilningur á orðaforða sem tengist skólastarfi, námi og þroska barns sé fyrir hendi. Því þarf alltaf að velta fyrir sér markmiði fundarins og hvort öll foreldri fái tækifæri til þess að sinna skyldum sínum sem skólaforeldri eða hvort gengið er á rétt þeirra.
Fundir sem varða hagsmuni barns
Þegar taka á ákvörðun sem varðar hagsmuni barna gilda ekki bara Grunnskólalög heldur einnig Stjórnsýslulög. Í Stjórnsýslulögum er sérstaklega farið yfir skyldur stofnana. Gæta þarf jafnræðis í vinnslu mála og upplýsa þarf alla málsaðila um forsendur og mögulegar afleiðingar ákvarðana. Á skólanum hvílir einnig leiðbeiningarskylda sem verður ríkari eftir því sem málsaðilar hafa minni þekkingu á stjórnkerfinu. Allir málsaðilar eiga andmælarétt sem þýðir að þeir eiga að hafa rödd og þurfa að fá tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og geta mótmælt ef þeir eru ósammála ákvörðunum sem teknar eru.
Hvað ef foreldri hafnar túlki?
Einstaka sinnum koma upp mál þar sem foreldri hafnar túlki. Meta þarf hvert mál fyrir sig út frá hagsmunum barnsins og rétti foreldra til þess að taka þátt í og styðja við nám og þroska barna sinna. Ástæðurnar geta verið margvíslegar, meðal annars:
- Tengsl – Foreldri treystir sér ekki til þess að tala óhindrað vegna tengsla
- Þá þarf að fresta fundi og fá annan túlk eða nýta Language line, sem oft er hægt að nýta með litlum fyrirvara.
- Góð íslenskukunnátta – Foreldri segist ekki þurfa túlk því það kunni íslensku
- Það er mjög jákvætt og virðingarvert. Ef til vill þarf þá ekki að túlka allt viðtalið, aðeins hluta þess. Túlkurinn er þá mögulega á varamannabekknum og heldur sig til hlés nema á þurfi að halda. Það gæti þurfti að útskýra fyrir foreldrum að túlkurinn er ekki síður fyrir kennarana sem þurfa að vera vissir um að skilja allt, og að allir fundargestir skilji það sem fram fer á fundinum og hafi tækifæri til að tjá sig.
- „Ég túlka bara“ – Foreldri segist útskýra fyrir maka, jafnvel eftir að fundi lýkur
- Skv. lögum er það ekki leyfilegt. Hægt er að bjóða upp á símatúlkun gegnum Language line til þess að auka fjarlægð túlksins og hlutleysi.
- Öll foreldri eiga rétt á öllum upplýsingum sem varða hagi barnsins, sjá Grunnskólalög og Stjórnsýslulög. Það er ekki leyfilegt skv. lögum að haga fundum þannig að aðeins eitt foreldri fái upplýsingar og geti tjáð sig með beinum hætti
- Sjá 3.gr. og 18. gr. grunnskólalaga
- Sjá 11.gr. og 15. gr. stjórnsýslulaga
- Ef foreldrið ætlar sér að sinna hlutverki túlks er ólíklegt að það geti tekið fullan þátt í viðtalinu/fundinum og um leið rækt skyldur sínar sem skólaforeldri
- Öll foreldri eiga rétt á öllum upplýsingum sem varða hagi barnsins, sjá Grunnskólalög og Stjórnsýslulög. Það er ekki leyfilegt skv. lögum að haga fundum þannig að aðeins eitt foreldri fái upplýsingar og geti tjáð sig með beinum hætti
- Skv. lögum er það ekki leyfilegt. Hægt er að bjóða upp á símatúlkun gegnum Language line til þess að auka fjarlægð túlksins og hlutleysi.
- Menning og fordómar – Örsjaldan koma upp mál þar sem eitthvað sem tengist persónu túlksins stuðar foreldra svo þeir neita samstarfi
- Hér þarf að stíga varlega til jarðar því það er stjórnarskrárvarin réttur Íslendinga að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Einnig skulu konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna. Sjá 65. grein gildandi Stjórnarskrár.
- Ef mótmæli foreldra gagnvart túlki tengjast deilum tiltekinna hópa þarf að gera ráðstafanir sem tryggja hlutleysi túlksins. Language line kann að vera eina lausnin í slíkum málum.
- Viðbrögð skólans í málum af þessu tagi kunna að hafa áhrif á traust og virðingu foreldra gagnvart skólanum. Rétt er að leita ráðgjafar skrifstofu Skóla- og frístundasviðs þegar upp koma mál sem þessi.
- Það er að öllu leiti óásættanlegt að fordómafullum hugmyndum um tiltekna þjóðfélagshópa sé viðhaldið af skólum með því að samþykkja eða fallast á rök sem byggja á fordómum. Ávalt skal ræða ágreiningsmál og sporna skal við fordómum á faglegan hátt.
Túlkaþjónustur með rammasamning við borgina
Eftirfarandi túlkaþjónustur eru með rammasamning við Reykjavíkurborg frá 2022 til 27. júní 2026.
Skólaviðtöl flokkast sem samfélagstúlkun eða almenn þjónusta túlka.
Alþjóðasetur, sími: 530-9300, https://www.asetur.is/
Ling túlkaþjónsta, sími: 775-8585, https://ling.is/
Scriptorium, sími: 898-7966, https://scriptorium.is/
Túlka- og þýðingamiðstöð Íslands, sími: 517-9345, https://tulkamidstodin.is/
Túlkaþjónustan, sími: 517-0606, https://www.pantatulk.is/
Language line, býður upp á símatúlkun á ótal tungumálum. Leiðbeiningar með aðgangsorði hafa verið sendar til allra skóla.
Hægt er að leita utan rammasamnings þegar ekki fæst túlkur á viðkomandi tungumáli. Ráðgjafar MML geta gefið frekari upplýsingar.
Hvernig virkar Language line?
Reykjavíkurborg er með samning við símatúlkunarfyrirtækið Language line. Nauðsynlegt er að hafa viðtal á ensku til þess að hægt sé að nýta þjónustuna.
Language line getur verið gagnlegt þegar:
- Ekki fæst túlkur á viðkomandi tungumáli
- Tryggja þarf fjarlægð og hlutleysi túlks, það getur verið nauðsynlegt þegar hópur málnotenda er smár eða mikil tengsl innan hópsins
- Skyndileg forföll verða hjá túlki, þar sem hægt er að bóka símatúlkun með litlum fyrirvara
- Túlkur hefur ekki verið bókaður á réttu tungumáli
Tvær leiðir eru mögulegar í notkun Language line
- Túlkun fer fram á staðfundi gegnum síma með hátalara. Fundargestir þurfa að sitja þannig að hljóðnemi nemi mál þeirra og þeir heyri vel það sem túlkurinn segir
- Einnig er hægt að halda símafundi í fjarlausn, biðja þarf sérstaklega um það og taka þarf fram hvort skólinn hýsi fundinn eða Language line. Sjá leiðbeiningar til skóla.
Í báðum tilvikum er hringt í símanúmer 00 44 845 310 9900 og gefið upp aðgangsorð skólans. Óskað er eftir viðeigandi tungumáli og því næst fær notandi samband við túlk á því tungumáli og getur upplýst hann um tilgang viðtalsins. Þá getur túlkun hafist. Einnig er hægt að panta túlkun fram í tímann.
Val á túlki
Gefið ykkur tíma til þess að leita að góðum túlkum. Það er góð regla að spyrja túlkaþjónustuna hver komi frá þeim.
Skráið hjá ykkur þegar þið fáið góðan túlk, fáið nafnspjald. Óskið eftir sama túlki næst þegar þið pantið túlk á því tungumáli.
Forðist að endurbóka túlka sem þið hafið verið ósátt við.
Kynnið ykkur siðareglur túlka
1. gr.
Hlutverk túlks er að túlka samskipti milli aðila sem ekki tala sama tungumál, á óvilhallan hátt og með virðingu málsaðila að leiðarljósi. Hann skal af fremsta megni leitast við að ávinna og viðhalda trausti málsaðila og samfélagsins á túlkunarstarfinu og faglegri hæfni túlka.
2. gr.
Túlkur skal vera óháður málsaðilum. Hann skal ekki taka við verkefninu þegar hann er á þann hátt tengdur öðrum málsaðilanum að hlutleysi túlksins sé stefnt í hættu.
3. gr.
Túlkur skal rækja störf sín af fordómaleysi og án þess að fara í manngreinarálit vegna kynþáttar, menningar, trúarbragða, færniröskunar, sjúkdóma, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, þjóðfélagsstöðu eða stjórnmálaskoðana málsaðila sinna.
4. gr
Túlkurinn skal hlýða samvisku sinni og sannfæringu. Honum ber að synja að framkvæma túlkun sem hann treystir sér ekki til að bera faglega ábyrgð á, þegar hann er ekki nægilega kunnugur málsefninu eða hugtakanotkuninni. Túlkurinn getur vísað til annars túlks telji hann hag viðkomandi betur borgið með þeim hætti. Túlkurinn áskilur sér einnig þann rétt að ákveða að hætta vegna samviskuástæðna eða vegna erfiðra kringumstæða, við hótanir eða árásarhneigð málsaðila.
5. gr.
Túlkur skal vera hlutlaus varðandi efnisatriði túlkunarinnar og skal ekki láta í ljós skoðanir sínar gagnvart málsaðilum, kjósa málsstað annars aðila og láta freistast til að tjá sig um eigin viðhorf, eigin túlkun á efninu eða tilfinningar varðandi verkefnið eða hlutaðeigandi aðila. Hann skal jafnframt vera hlutlaus varðandi framsetningu samskipta og upplýsinga. Hann skal rekja þau á sama hátt og þau koma fyrir.
6. gr.
Túlkurinn túlkar samtalið milli málsaðila eins nákvæmt og málefnalegt og unnt er, þ.e.a.s. án þess að bæta einhverju við, sleppa eða breyta einhverju. Þegar örðugleikar koma upp vegna mismuna í tungumálanotkun og merkingakerfa sem koma í veg fyrir eðlilegt framhald túlkunar ber túlknum skylda að tilkynna það strax.
7. gr.
Túlkur skal leitast við að gæta virðingar túlkunar sem fags og starfs, gagnvart einstaklingum og gagnvart samfélaginu. Túlkurinn skal gæta háttvísi í framkomu og sýna störfum sínum og fagi virðingu í samræmi við góðar túlkunarvenjur.
8. gr.
Túlkurinn skal standa vörð um heiður, orðstír og hagsmuni stéttarinnar. Honum ber að sýna túlkastéttinni hollustu og hann skal af fremsta megni leitast við að stuðla að samheldni og samstarfi innan stéttarinnar. Honum ber að sýna starfssystkinum sínum réttvísi og drengskap.
9. gr.
Túlkur er bundinn algjörri þagnarskyldu um þá vitneskju sem hann fær við túlkun, á meðan og eftir að hann starfar sem túlkur. Hann má ekki undir neinum kringumstæðum tjá sig um efnisinnihald samtalsins við túlkunina, og ekki heldur nota þessa vitneskju til að bjóða frekari þjónustu og nota upplýsingarnar í eigin þágu eða til að geta hagnast á. Hugsanlegar undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn þegar almannaheill er í húfi en eingöngu að höfðu samráði við siðanefnd félags túlka.
10. gr.
Við túlkun skal túlkur aðeins túlka, hann hefur ekki önnur verkefni en túlkun. Túlkurinn skal ekki fara út fyrir starfssvið sitt og honum ber að hafna öllum beiðnum að vinna önnur störf en túlkunarstarfið.
11. gr.
Túlknum ber að setja faglegan metnað í öndvegi. Honum er skylt að kappkosta að viðhalda, bæta og endurnýja faglega þekkingu sína og færni, og vinna verk sín af alúð og kostgæfni.
12. gr.
Siðareglar þessar mega ekki teljast tæmandi upptalningu allra nauðsynlegra starfsreglna. Túlknum ber að sýna ríka ábyrgðatilfinningu og siðferðilega dómgreind í samræmi við aðstæður til að standa undir skyldum sínum og inna verkið vel af hendi.
Nýtið tímann vel
Sendið túlki upplýsingar um efni fundar (helst orðalista) svo unnt sé að undirbúa orðaforða viðtals. Einföld stærðfræðihugtök geta t.d. vafist fyrir þeim sem hafa aldrei lært stærðfræði á íslensku.
Reiknið með tvöfalt lengri tíma en í sambærilegu viðtali án túlks því allt sem sagt er þarf að þýða og endurtaka a.m.k. einu sinni.
Hafið í huga að viðkvæmir og flóknir fundir geta dregist á langinn, stundum jafnvel út fyrir umsaminn vinnutíma. Þegar fundartíminn er knappur er nauðsynlegt að útskýra að þið þurfið að ljúka fundi fyrir ákveðinn tíma. Ef ekki næst að ljúka fundinum þá bókum við nýjan fund með túlki áður en við stöndum upp. Fari svo að fundur dragist á langinn og vinna þarf fram eftir þá er vinnutímaskráningin leyst í samstarfi við yfirmann síðar meir.
Hvað ef túlkurinn talar ekki íslensku?
Því miður kemur það fyrir að túlkar treysta sér ekki í viðtöl á íslensku en treysta sér í viðtal á öðru tungumáli s.s. ensku. Einstaka sinnum reynist ekki hægt að finna túlk á tungumáli foreldra svo viðtöl þurfa að fara fram á mörgum tungumálum. Gott er að hafa í huga að fyrir hvert tungumál sem bæta þarf við, lengist viðtalstíminn um því sem nemur. Gera þarf ráð fyrir þessum viðbótartíma svo unnt verði að ræða allt sem til stendur.
Skv. Málstefnu Íslands 2021-2030 og Málstefnu Reykjavíkur er íslenska það tungumál sem kennarar eiga að nota í störfum sínum nema sérstakar aðstæður komi upp. Það er ekki æskilegt að foreldraviðtöl fari aðeins fram á ensku eða öðru tungumáli en íslensku því þannig eru foreldrar sviptir aðgengi að íslensku og þar með tækifærinu til þess að ná tökum á orðunum sem notuð eru um nám barna þeirra. Þumalfingursreglan er að alltaf skuli nota íslensku fyrst, svo önnur tungumál ef þörf krefur.
Þetta táknar að íslenska sé alltaf sjálfgefið samskiptamál nema sérstakar aðstæður krefjist annars.
(Íslensk málnefnd, 2021:39)
Það að túlkur tali ekki íslensku getur hægt á og hamlað viðtali. Ef nauðsynlegt reynist að nota annað/önnur tungumál í viðtali verður viðeigandi undirbúningur að hafa farið fram og gott getur verið að hafa skrifað hjá sér lykilhugtök og farið yfir málvenjur á því tungumáli s.s. þéranir, kurteisisvenjur o.fl.
Það kostar bæði tíma og fyrirhöfn að túlka yfir á annað tungumál, því er sjaldan heppilegt að sá sem stýrir viðtali túlki einnig á annað tungumál. Almennt er best að sá sem stýrir viðtali geri það á íslensku og einhver annar þýði á ensku jafnóðum, ef nauðsynlegt reynist. Reynsla okkar í MML sýnir að margir túlkar tala ágætis íslensku þó þeir treysti sér ekki til þess að túlka heilt viðtal eingöngu gegnum íslensku. Það er því allra hagur að nota íslensku.
Á að slíta viðtali?
Mikilvægt er að samtal geti átt sér stað og að allt sem öllum liggur á hjarta komist rétt til skila. Því skiptir túlkun miklu máli og hversu vel tekst til hefur áhrif á þá mynd sem foreldrar hafa af skólanum og fyrir hvað hann stendur. Slök eða slæm túlkun getur ekki aðeins skapað misskilning heldur einnig grafið undan trausti og skapað skólanum ímynd sem erfitt er að vinda ofan af.
Rauðu flöggin
Þegar túlkun er ekki í samræmi við væntingar er fyrsta skrefið alltaf að ræða málið við túlkinn um mögulegar ástæður og kanna leiðir til lausna. Við erum í samvinnu við túlkinn. Sú samvinna þarf að einkennast af gagnkvæmri virðingu og fagmennsku.
- Ljúka skal viðtali ef sterkur grunur vaknar um að túlkur:
- valdi vanlíðan hjá barni/fundargestum
- tali ekki tungumál eða mállýsku sem barn/fundargestir skilja
- breyti opnum spurningum í já/nei spurningar
- tali fyrir viðmælendur í stað þess að leyfa barni/foreldrum að svara spurningum
- þekki fjölskylduna persónulega
- komi skilaboðum ekki rétt til skila
- flæki viðtal í stað þess að auðvelda það
Góð þumalfingursregla er að treysta á eigin dómgreind og slíta fundi ef túlkunin gengur illa. Það er sérstaklega mikilvægt þegar rætt er við jaðarsetta hópa sem ekki treysta stofnunum eða kerfum vegna fyrri reynslu. Hafið í huga að samstarf heimilis og skóla getur verið í húfi.
Ef slíta þarf viðtali:
- Útskýrið að viðtalinu sé lokið en þið þurfið að hitta foreldra aftur síðar
- Leggið drög að næsta fundi (með öðrum túlki)
- Við útskýrum fyrir fundargestum af hverju þarf að slíta viðtali
- Sendið ábendingu um hvað hafi farið úrskeiðis til túlkaþjónustunnar á tölvupósti, setjið tulkar(hjá)reykjavik.is í afrit
- Túlkaþjónustur geta ekki tekið á vanda nema upplýsingar berist
Viðtöl með túlki
Viðtalið er samtal skóla og heimilis. Tilgangur túlksins er að brúa bilið milli tungumála. Best er að þið snúið alltaf að fundargestum og að túlkur sitji til hliðar.
Virðum óskir foreldra um hvort, eða hvaða túlk þeir kjósa sér. Hafið þó í huga að túlkurinn er ekki bara fyrir þá sem mæta í viðtal, hann er líka fyrir ykkur svo þið getið verið viss um að skilja allt sem kann að koma fram í viðtalinu og að allir fundargestir skilji það sem sagt er.
Áður en viðtalið hefst er gagnlegt að fara yfir hlutverk túlksins ásamt helstu atriði úr siðareglum túlka með viðmælendum og túlki.
Túlkur er bundinn algerri þagnarskyldu
Túlkur skal túlka allt sem er sagt án þess að sleppa neinu eða bæta við
Leiðbeinið túlki ef hann ruglast, gleymir eða túlkar ekki eitthvað. Spyrjið ef eitthvað er óskýrt.
Árangursríkt er að fara yfir markmið viðtalsins og tilgang í upphafi fundar/viðtals og ásamt tímanum sem við höfum til umráða. Í lokin tökum við saman niðurstöðurnar og förum yfir upplýsingar og ákvarðanir. Niðurstöður rannsókna Translators without borders (2017) benda til þess að stór hluti jaðarsettra hópa sé líklegur til þess að segjast skilja mikilvæg skilaboð þrátt fyrir að hafa ekki meðtekið þau. Ítarefni getur því haft mikla þýðingu, jafnvel þó það sé einungis til á íslensku.
Í viðtali
Tölum íslensku
Notum nákvæmt og hnitmiðað orðalag
Horfum framan í viðmælendur okkar þegar við tölum og hlustum
Gerum málhlé svo unnt sé að túlka og gefum túlkinum merki s.s. með því að líta til hans þegar tímabært er að túlka
Nýtum svipbrigði, bendingar og leikræn tilþrif til að leggja áherslu á mál okkar
Nýtum myndir og sýnidæmi máli okkar til stuðnings. Skiljum eftir ítarefni