Leiðsagnarnám – Nanna Kristín Christiansen
Í kaflanum Fjölbreyttar matsaðferðir í aðalnámskrá grunnskóla, 2011 segir: Kennarar þurfa að hjálpa börnum og ungmennum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig miðar í átt að þeim. Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu.
John Hattie og Shriley Clarke sem eru virtir sérfræðingar í leiðsagnarmati (formative assessment) segja að leiðsagnarmat snúist um að kennarinn notar endurgjöf/leiðsögn til að styðja nemandann í átt að námsmarkmiðum sínum frá þeim stað sem hann er á.
Kennarinn og nemendur meta sífellt stöðu og framfarir nemenda en kennarinn nýtir niðurstöðurnar til að rýna í eigin kennslu og taka ákvarðanir um næstu skref. Með leiðsagnarmati er megin áherslan á það sem gert er við niðurstöður matsins fremur en á matið sjálft, öfugt við það sem einkennir lokamat.
Skólar í Reykjavík sem eru að þróa leiðsagnarmat hafa kosið að nota orðið leiðsagnarnám til að undirstrika að þunginn er á námið fremur en á matið.
Lykil hugtakið í leiðsagnarnámi er endurgjöf/leiðsögn. Forsendur endurgjafar/leiðsagnar er að nemandinn geti nýtt sér hana til að nálgast markmið sitt. Rannsóknir sýna að til að endurgjöfin/leiðsögnin hafi þau áhrif sem að er stefnt þarf námsmenningin að einkennast af trausti nemenda til kennara, ríkum væntingum kennara til allra nemenda, getublöndun, virkri samvinnu, viðurkenningu á því að mistök eru eðlilegur hluti náms, vaxandi hugarfari þ.á.m. þrautseigju og skilningi nemenda á því hvernig nám fer fram. Námsmenningin einkennist jafnframt af því að nemendur læra saman og hver af öðrum, þess vegna eru samræður áberandi og kennarinn vekur athygli á því sem vel er gert og því sem má læra af.
Þegar unnið er með leiðsagnarnám þurfa nemendur alltaf að þekkja námsmarkmið sín og vita hvað þeir eiga að læra í hverri kennslustun (lotu). Til að þeir geti unnið verkefni sín eins og til er ætlast þurfa þeir einnig að vita hvernig gott verkefni á að vera.
Skólaárið 2017 – 2018 var unnið þróunarverkefni um leiðsagnarmat og skráðu 17 grunnskólar sig til leiks. Þó svo að formlegri þróunarvinnu sé lokið þá er þetta verkefni enn í gangi og alltaf nýir grunnskólar að bætast í hópinn.
Þróunarskýrsluna Leiðsagnarmat er málið má finna hér.