Spurt og svarað um íslensku sem annað tungumál
Hvað er ÍSAT?
ÍSAT eða íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir byrjendur í íslensku. Sjá kafla 19.3 í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2021.
Íslenska sem annað tungumál er ætluð nemendum sem eru að ná tökum á íslensku og eiga ekki íslensku að móðurmáli. Markmið með kennslunni eru að nemendur tileinki sér og læri íslensku þannig að þeir geti stundað alhliða nám í íslensku skólastarfi með jafnöldrum og tekið virkan þátt í samfélaginu.
Hverjir læra ÍSAT?
Hver ber ábyrgð?
Ábyrgð á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli er sameiginlegt verkefni allra sem koma með einhverjum hætti að námi barnsins.
Sjá kafla 19.3 í Aðalnámskrá grunnskóla. Þar segir:
Ábyrgð á íslenskunáminu hvílir á skólastjórnendum, umsjónarkennurum, íslenskukennurum og kennurum allra námssviða sem þurfa að vinna saman til að námið verði markvisst. Eins er brýnt að allt starfsfólk sem kemur að námi eða frístundastarfi nemendanna sé upplýst um hæfni þeirra í íslensku og taki þátt í að styðja við námið. Foreldrar bera ábyrgð á að styðja við íslenskunám barna sinna og að rækta og þróa eigið móðurmál til að stuðla að virku fjöltyngi.
Hve mikla kennslu eiga börn að fá í ÍSAT?
Viðmiðunarstundatafla í íslensku sem öðru tungumáli frá Menntamálastofnun má finna hér.
Hafa þarf í huga að allir sem koma að námi barnsins bera sameiginlega ábyrgð á kennslu ÍSAT. Allir kennarar þurfa því að huga að því hvernig þeir geta stutt við máltöku nemenda á íslensku við skipulag kennslu og gera ráð fyrir öllum nemendum. Hlutverk stjórnanda snýr að því að tryggja boðleiðir, fundatíma og auðvelda samstarf og samvinnu um kennslu ÍSAT þvert á námsgreinar.
Viðbótarkennsla í íslensku sem öðru tungumáli þarf að vera skipulögð í samstarfi við alla aðra kennara barnsins og hafa að aðalmarkmiði að nemendur geti verið virkir þátttakendur í öllum kennslustundum og bætt við sig þekkingu bæði í íslensku og viðkomandi námsgrein.
Hver eru hæfniviðmið í ÍSAT?
Hæfniviðmið í íslensku sem öðru tungumáli er að finna í Aðalnámskrá, kafla 19,4.
Hæfnirammarnir eru þrepaskiptir og lýsa stigvaxandi hæfni nemenda í íslensku sem öðru tungumáli. Römmunum er ætlað að lýsa hæfni sem krafist er í notkun íslensku á öllum sviðum tungumálanáms. Hæfnirammarnir miða ekki við aldur nemandans heldur stöðu hans í íslensku. Þó má gera ráð fyrir að yngri nemendur fylgi viðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í skemmri tíma en þeir eldri.
Hæfnirammarnir byggja á Evrópsku tungumálamöppunni.
Hæfnistigin eru þrjú. Forstig, 1. stig, 2. stig og 3. stig. Þegar barn hefur nám í íslensku sem öðru tungumáli byrjar það yfirleitt á 1. stigi.
Forstigið er fyrir þá nemendur sem ekki lesa latneskt stafróf og þurfa einnig að læra stafrófið.
Athugið að hæfniviðmið í íslensku sem öðru tungumáli má einungis nýta fyrstu tvö til fjögur ár nemandans á Íslandi. Eftir það þarf að nota aldurstengd hæfniviðmið í íslensku.
Hvað ef börn ná ekki hæfniviðmiðum í ÍSAT á 4 árum?
Skv. Aðalnámskrá, kafla 19.3 eiga börn rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli fyrstu 2-4 árin. Eftir það fylgja þau aldurstengdum viðmiðum í íslensku með viðeigandi stuðningi.
Þó ber að hafa í huga að nemendur þurfa markvissa kennslu og stuðning þegar þeir byrja að fylgja aldurstengdum viðmiðum í íslensku.
Íslenska sem annað tungumál er því alveg eins og allar aðrar námsgreinar þar sem nemendur sem ekki ná viðmiðum þurfa viðeigandi stuðning og einstaklingsmiðaða nálgun.
Matsviðmið við lok grunnskóla
Í kafla 19.8.3 í Aðalnámskrá grunnskóla eru matsviðmið í íslensku sem öðru tungumáli sérstaklega tilgreind.
Athugið að hæfniviðmið í íslensku sem öðru tungumáli má einungis nýta fyrstu tvö til fjögur ár nemandans á Íslandi. Eftir það þarf að nota aldurstengd hæfniviðmið í íslensku. Sjá kafla 19.8.1