Þegar barn flytur til Íslands og hefur nám í grunnskóla á skóli alltaf að upplýsa tengilið frístundastarfs um komu barnsins. Farsælast er að tengiliðurinn hitti barnið og fjölskyldu þess stuttlega í móttökuferlinu og kynni starfsemina.

Skólum ber að leggja stöðumat nýrra nemenda á Íslandi fljótlega eftir komu. Í stöðumatinu er spurt um ýmsa þætti sem tengjast óformlegu námi barns. Spurt er um þessi atriði í stöðumati nýrra nemenda.

  • Málheimur barnsins
    • Hvaða tungumál barnið kann.
  • Óformlegt nám
    • Upplýsingar um fyrri þátttöku í skipulögðu frístundastarfi.
    • Upplýsingar um kunnáttu og færni.
      • Mörg börn hafa áhuga á að byggja eitthvað, spila tölvuleiki eða búa til myndasögur. Önnur kunna að gera við mótorhjól, hlaupa mjög hratt, syngja mikið eða eru flink að hanna eitthvað nýtt.
  • Áhugamál
    • Upplýsingar um áhugmál barnsins og hvað barninu þyki gaman að gera þegar það er ekki í skólanum.
  •  Menningarmunur
    • Í stöðumatinu kemur einnig fram úr hvers konar menningarheim barnið er að flytja. Það eru mikilvægar upplýsingar fyrir frístundastarf svo hægt sé að aðstoða barnið við að fóta sig í nýjum aðstæðum.

Hægt er að óska eftir þessum upplýsingum frá skólanum við móttöku nýs barns eða ungmennis í skipulagt frístundastarf.

Margir óttast misskilning og að vera að skilja útundan með því að nota íslensku við þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í tungumálinu. Það eru óþarfa áhyggjur. Samskipti hafa verið rannsökuð í mörghundruð ár og samskvæmt samskiptamódeli Mehrabian þá er skilningur á orðum aðeins 7% af þeim upplýsingum sem fólk tekur til sín. Raddblær og tónn raddar skila 38% innihalds og líkamstjáning svo sem öll svipbrigði inniheldur 55% skilaboðanna. Frístundastarfsfólk ætti því að veita sérstaka athygli hvernig það á í samskiptum. Óþarfa enskunotkun þjónar engum tilgangi fyrir samskipti og gæti mögulega verið þroskaþjófur fyrir félagsleg samskipti barnsins.

Dæmi 1: „Vertu hjartanlega velkominn,“ sagði maðurinn áhugalaus án svipbrigða.
Dæmi 2: „##### ####“, sagði maðurinn hlýlegri röddu, rétti út lófana og brosti.

Rannsóknir sýna að börn verða að fá tækifæri til þess að heyra og nota tungumál ef þau eiga að læra þau.

Til þess að læra nýtt tungumál þarf mikinn tíma og marga ólíka aðila sem nota tungumálið markvisst í öllum samskiptum við barnið.

Rannsóknir sýna að til þess að ná góðri færni í tungumáli þurfa börn að verja 40-60% vökutímans í því málumhverfi.  Afar mikilvægt er að allt starfsfólk í frístundastarfi sé meðvitað um þá ábyrgð sem þau bera á máluppeldi barna. Börn læra alls ekki íslensku ef talað er við þau á ensku eða öðrum tungumálum í staðinn fyrir íslensku.

Vegna mikilvægis frístundastarfs þarf einnig að taka meðvitaðar ákvarðanir um allt sem tengist málnotkun:

  • samskipti
  • tónlist
  • myndir
  • lesefni
  • tölvuleikir
  • spil

Öll tungumál eru auðlind og tungumálakunnátta er eftirsóknarverð. Frístundastarf er mikilvægur hlekkur í máluppeldi barna á íslensku. Það má nota önnur tungumál með íslensku en aldrei í staðinn.

Í frístundastarfi gefst einstakt tækifæri til þess að aðstoða barn við félagsleg tengsl. Eitt af því sem gott er að hafa í huga er hvaða frasar, orð eða samskiptavenjur eru ríkjandi í hópnum. Mögulega þarf að kenna þessa frasa, orð og venjur til þess að auðvelda barninu að tengjast jafningjum.

Hegðun og líðan eru nátengd. Ef barn sýnir neikvæða eða erfiða hegðun er nánast öruggt að það er að upplifa vanlíðan.

Við móttöku nýrra barna er mikilvægt að setja sig í spor barnsins og reyna að skilja af hverju því líður illa.

Öll börn hafa þörf fyrir öryggi. Börn með áfallasögu hafa enn ríkari þörf fyrir rútínu, fyrirsjáanleika og ramma í daglegu starfi. Margar gagnlegar leiðir eru færar til þess að auðvelda börnum með áfallasögu að upplifa öryggi í frístundastarfi. Allt sem rammar inn daglegt starf og auðveldar barninu að skilja hvað er í gangi og hvað gerist næst dregur úr streitu og auðveldar þátttöku.

  • Sjónræn fyrirmæli (mynd eða tákn og orð)
  • Dagskrá sýnileg
  • Rútína og fyrirsjáanleiki
    • í samskiptum og viðbrögðum
  • Sömu reglur gildi í öllu starfinu
  • Aðgengi að rólegu rými þar sem áreiti er takmarkað

Hér má lesa um áfallamiðaða nálgun í skólastarfi en þar má finna ýmsar gagnlegar bjargir.

Hvernig er unnið með tungumál í frístundastarfi?

Í vinnslu

Sýnileiki fjölbreyttra fyrirmynda

Í vinnslu