Spurt og svarað um málstefnur
Hvað er málstefna?
Bernard Spolsky hefur rannsakað og skrifað mikið um málstefnur og hér verða rakin nokkur atriði úr skrifum hans.
- Málstefna tengist málnotkun
Hér er ekki aðeins rætt um val á tungumáli, heldur einnig orðaval, slettur, málsnið, framburð og annað sem tengst getur málnotkun.
- Málstefna tengist hugmyndum, viðhorfum og væntingum til tungumála
Þær hugmyndir snúast ekki bara um hvaða tungumál eigi að nota hvenær og hverjir eigi og megi nota tungumálið. Viðhorf okkar og væntingar snúa að því sem okkur þykir æskilegt s.s. kurteisisvenjur, málsnið, stafsetning, orðalag, málfræði, beygingar, framburður og hversu vel við teljum okkur skilja eða geta lært tungumál, en einnig um það sem er bannað eða illa séð s.s. frávik frá viðteknum málvenjum, slettur, meiðandi eða særandi orðfar sem breytist í takt við samfélagslegar breytingar.
Hugmyndir okkar um tungumál snúast líka um virði, gagnsemi og tilgang tungumála. Þannig getur verið gagnlegt að velta fyrir sér tilgangi þess að læra eða viðhalda íslensku. Ef tungumál þjónar engum tilgangi er vandséð hvernig nýjar kynslóðir fást til þess að tileinka sér það og nota. Dæmi um nytsemi tungumála eru: dagleg samskipti, aðgengi að þjónustu og samfélagi, aðgengi að menningu, listum, sögu, bókmenntaarfi sem og menntun og störfum.
- Málstefna tengist aðgerðum til að hafa áhrif á málnotkun og viðhorfum og hugmyndum um tungumál
Tungumálastefnur snúast ekki bara um hvaða tungumál eigi að nota og hvenær. Heldur einnig hvað sé talið gott eða slæmt mál og hverju skuli útrýma, styðja við eða reyna að viðhalda.
Útrýming flámælis á Íslandi er eitt dæmi um beitingu málstefnu. Þá var stök mállýska skilgreind sem skaðleg fyrir tungumálið, skimað var fyrir flámæli og börn send í talþjálfun til að venja þau af opnum framburði á -i. Annað skýrt dæmi um notkun málstefnu eru stafsetningarreglur sem ramma inn tungumálið.
Þó til sé formleg rituð málstefna er ekki þar með sagt að notkun tungumálsins fylgi henni sbr. árangurslausar tilraunir presta til að útrýma guðlasti eða blótsyrðum. Til þess að málstefna hafi áhrif þarf hún að endurspegla flókið samspil tungumáls við alla þætti samfélagsins.
Málstefnur eiga oft við smærri hópa en heilar þjóðir eða málsvæði. Vel þekkt er að innan ákveðinna stétta verður oft til fagorðanotkun. Fjöltyngdar fjölskyldur eiga sér oft óformlega málstefnu sem allir innan fjölskyldunnar þekkja og virða. Málstefnan getur falist í því hver talar hvaða tungumál og við hvern, hvenær og hvar tungumál eru notuð, hvaða orð eru notuð og á hvaða tungumál sjónvarp heimilisins er stillt. Að lokum er hægt að nefna yngri málnotendur sem eru duglegir að búa til ný orð eða tileinka sér tökuorð úr umhverfinu, jafnvel á óvæntan og óskiljanlegan hátt fyrir aðra. Allir þessir hópar hafa náð einhvers konar samkomulagi um notkun á tungumálinu og viðhorfum til þess án þess að eiga sér ritaða eða formlega málstefnu.
Til þess að ákvarðanir sem teknar eru um tungumál hafi áhrif á notkun þess er nauðsynlegt að þær séu í samræmi við notkun tungumálsins og teknar í fullu samráði við notendur þess.
Til þess að komast að sannri málstefnu samfélags er nauðsynlegt að skoða hvaða hugmyndir ríkja um tungumálið og hvernig það er notað fremur en hvaða boð og bönn gildi um tungumálanotkun.
Af hverju á að vinna með málstefnur í skóla-og frístundastarfi?
Í Aðalnámskrá er fjallað um að skólar móti sér málstefnu í tveimur köflum.
Í kafla 19.1 Menntagildi og megintilgang íslensku segir:
„Mikilvægt er að grunnskólar marki sér málstefnu á grundvelli aðalnámskrár og íslenskrar málstefnu sem Alþingi hefur samþykkt og að henni sé fylgt í öllum námssviðum.“
Í kafla 7.14 Fjöltyngi segir:
„Æskilegt er að skólar og frístundaheimili móti sér tungumálastefnu sem leiðarljós fyrir starfsfólk og nemendur í daglegu starfi og samskiptum. Taka skal mið af núgildandi lögum, stefnum, aðalnámskrám og alþjóðlegum skuldbindingum. Við mótun tungumálastefnu er mikilvægt að starfsfólk ígrundi í sameiningu hvernig unnið er með fjölbreytt tungumál og komi sér saman um þær áherslur sem eiga að vera ríkjandi. Í tungumálastefnu þarf að koma fram með hvaða hætti er unnið með tungumál í samskiptum og daglegu starfi og hvaða leiðir eru nýttar til að nýta tungumálaforða nemenda sem best ásamt því að virkja og viðhalda áhuga allra nemenda á fjöltyngi.“
Enn fremur kemur fram í Málstefnu Íslands 2021-2030:
„Málfærni barna í grunnskóla leggur grunninn að síðara námi. Íslenska er ekki einvörðungu námsgrein heldur mikilvægasta verkfærið í öllu námi.“
Hugtakanotkun um tví- og fjöltyngi
Tungumál eru samofin sjálfsmynd okkar. Börn sem heyra og nota fleiri en eitt tungumál á hverjum degi alast upp í tví- eða fjöltyngdu málumhverfi. Mikilvægt er að hafa í huga að þó börn alist upp í fjöltyngdu málumhverfi þar sem íslenska er ekki eitt tungumála heimilis getur sjálfsmynd barnsins engu að síður verið byggð á og samofin íslensku. Þannig getur íslenska verið eitt móðurmála barnsins þó móðurmál foreldra og tungumál heimilis séu ólík. Varasamt getur verið að líta svo á að börn innflytjenda hafi sjálfkrafa íslensku sem annað tungumál.
Í vinnu með fjöltyngdum nemendum skal forðast að flokka börn eftir uppruna foreldra. Málumhverfi heimila geta verið ólík og kunnátta í heimatungumálum afar fjölbreytt. Skoða þarf málumhverfi hvers barns fyrir sig og afla upplýsinga um tungumálafærni barnsins og væntingar fjölskyldu til tungumálakunnáttu.
Nauðsynlegt er að ræða við foreldra um hvert eða hver séu heimatungumál barnsins. Heimatungumál eru öll þau tungumál sem töluð eru á heimilinu, sama hver færni málnotendanna er í tungumálinu.
Móðurmál foreldra önnur en samfélagstungumál eru stundum kölluð erfðatungumál. Oft er erfðatungumál barnsins alls ekki sterkasta tungumál þess. Hafa þarf í huga að því færri sem tala tungumálið við barnið, þeim mun flóknara er að viðhalda tungumálinu.
Námsorðaforði eða skólaorðaforði er sá orðaforði sem yfirleitt næst aðeins í gegnum gegnum nám eða lestur fjölbreyttra textategunda.
Samskiptatungumál barns eru þau tungumál sem það notar í samskiptum.
Sterkasta tungumál barns er það tungumál sem er því tamast og það skilur best. Afar mikilvægt er að spyrja foreldra reglulega um hvaða tungumál þeir telji vera sterkasta tungumál barnsins núna. Sterkasta tungumál barns breytist með tíð og tíma og það er eðlilegt að skólatungumálið taki smá saman yfir nema markvisst sé unnið með heima- og erfðatungumál.
Skjátungumál barns eru þau tungumál sem barnið heyrir og notar gegnum skjánotkun. Mikilvægt er að foreldrar og kennarar séu meðvitaðir um skjátungumál barns. Stundum leynast tækifæri til þess að styðja við bæði íslensku og erfðatungumál meðan á skjátíma stendur.
Stuðningur við heimatungumál barns
Æskilegt er að rætt sé við fjöltyngdar fjölskyldur um málumhverfi barna. Mikilvægt er að styðja við heimatungumál en það er grundvallaratriði að börn nái færni í íslensku. Íslenska er tungumál menntunar og aðgöngumiði að frekara námi þegar grunnskóla sleppir.
Þegar rætt er um málumhverfi barna getur verið nytsamlegt að kortleggja tíma barns í tungumáli og skoða gæði hvers tungumáls fyrir sig.
Til er talsvert fræðsluefni um leiðir fyrir fjöltyngdar fjölskyldur á vef Miðju máls og læsis. Sérstaklega er bent á fræðsluefni frá PEACH. Þar er m.a. farið yfir helstu atriði í málstefnuvinnu fjöltyngdra fjölskyldna.
- Hver eru markmið foreldra um tungumálafærni barnsins?
- Hversu miklum tíma ver barnið í hverju tungumáli fyrir sig? Og hver eru gæði tungumálsins? Heyrir barnið og notar fjölbreyttan orðaforða á öllum tungumálum sínum.
- Eru aðstæður barnsins þannig að líklegt sé að markmið um tungumálafærni náist? Hverju þarf að breyta (markmiðum eða aðstæðum)?
- Hvaða leiðir á að fara til að ná jafnvægi í tungumálaumhverfi barnsins og barnið fái nægilegan tíma og gæðamálörvun á öllum tungumálum?
Einnig er til fræðsluefni fyrir foreldra á nokkrum tungumálum frá belgískum talmeinafræðingum um máluppeldi tví- og fjöltyngdra barna. Þar kemur skýrt fram að tími og gæði málumhverfis eru forsenda málþroska barnsins á hverju tungumáli fyrir sig.
Árið 2020 gaf Mennta- og menningarmálaráðuneytið út leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi. Þar má finna fjölbreyttar tillögur um hvernig hægt er að vinna með og styðja við fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn barna.
Við lestur leiðarvísisins ber að hafa í huga að íslenska getur verið eitt móðurmála barna sem alast upp með fjölbreyttan tungumálabakgrunn á Íslandi og hluti af sjálfsmynd barns.
Tenging við Menntastefnu Reykjavíkur
Tungumálið er órjúfanlegur þáttur af tilveru okkar og flest samskipti byggja að einhverju leiti á málnotkun. Málumhverfi barnanna okkar á að einkennast af skilningi, gagnkvæmri virðingu þar sem mannréttindi og vinsemd eru í öndvegi.
Málrækt og viðhorf til íslensku
Íslenska gegnir veigamiklu samfélagslegu hlutverki. Málið tengist meðal annars tjáningu, túlkun og sjálfsmynd órjúfanlegum böndum. Þá tengir það kynslóðir og veitir aðgengi að upplýsingum og umræðu sem varða almannaheill. Kjarni íslenskrar málstefnu er jákvætt viðhorf til íslenskrar tungu með málrækt að leiðarljósi. Það felur í sér vilja til að varðveita tungumálið en um leið að íslenska sé löguð meðvitað og skipulega að nýjum aðstæðum sem hefur í för með sér að viðmið um það sem telst gott mál eða málstaðall hlýtur að taka breytingum. Það felur einnig í sér að tungumálið þjóni samskiptahlutverki sínu og að rækta margbreytileika þess.
Málrækt er að
- nota málið á öllum sviðum íslensks samfélags
- bera virðingu fyrir málinu og rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og mismunandi birtingarmynda þess
- mynda ný orð, endurvekja gömul orð eða gefa þeim nýja merkingu og fá lánuð orð úr öðrum málum eftir þörfum og laga þau að íslensku,
- vanda framsetningu á máli sínu og velja sér málsnið eftir tilefni og aðstæðum
- gera sér grein fyrir að tungumál er lifandi og tekur stöðugum breytingum
Jafnræði, jafnrétti og fjölmenningarlegt samfélag
Jafnræði og jafnrétti eru lykilhugtök í íslenskri málstefnu. Íslenska á alls staðar að vera sýnileg á opinberum vettvangi og upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku. Þá er mikilvægt að hafa hugfast að málið er öflugt valdatæki sem ber að beita af varúð. Því ætti ekki að beita til að gefa til kynna yfirburði eða undirskipun fólks eftir stétt þess og stöðu.
Jafnræði er að
- íslenska víki ekki fyrir ensku eða öðrum tungumálum heldur sé alltaf fyrsta málið og mest áberandi þótt upplýsingar á öðrum málum fylgi
- allir landsmenn hafi jafnan aðgang að upplýsingum á íslensku og eftir atvikum á öðrum málum að auki
- allt fólk sem talar íslensku hafi rödd, jafnvel þótt það hafi ekki full tök á málinu og notkun þess
- dæma ekki orðræðu annarra út frá málfari
Jafnrétti er að
- bera virðingu fyrir málnotkun allra sem tala íslensku og gæta þess að málnotkun sé ekki útilokandi
- nota orð og orðfæri um mismunandi þjóðfélagshópa sem fólk í þeim hópum kýs sjálft.
Fjölmenningarlegt samfélag
- viðurkennir rétt fólks sem ekki hefur náð tökum á íslensku til að tjá sig á öllum hugsanlegum vettvang
- sér íbúum sem ekki hafa náð tökum á íslensku fyrir nauðsynlegum opinberum upplýsingum á móðurmáli þeirra eða öðru tungumáli sem þeir skilja og tryggir þeim þjónustu túlka þegar þess er þörf
- gerir fólki sem hefur íslensku ekki að móðurmáli kleift að sækja námskeið í íslensku máli, sögu og menningu í vinnutíma sínum.
Máluppeldi barna
Miklu skiptir fyrir vöxt og viðgang íslenskrar tungu að lögð sé alúð í máluppeldi barna. Með því er átt við að leggja sig fram um málrækt og málörvun barna frá upphafi máltökuskeiðs og að því sé fylgt eftir allt skeiðið á enda. Málfærni barna á leikskólaaldri gefur vísbendingu um hvernig þeim gengur í námi síðar á skólagöngunni. Foreldrar og aðrir aðstandendur, skólakerfið og stjórnvöld hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að efla málfærni barna og unglinga. Mikilvægt er að máluppeldið sé með jákvæðum formerkjum svo að börn og unglingar verði ekki fráhverf málinu og kjósi ekki ensku fram yfir íslensku til frambúðar.
Máluppeldi felur í sér að
- tala við og lesa fyrir börn frá unga aldri, því meira sem gert er af því þeim mun betri tökum ná þau á málinu
- ræða reglulega við börn og unglinga um tungumálið og sýn þeirra á málnotkun
- hvetja börn og unglinga til þess að tjá sig, segja skoðanir sínar og rökstyðja mál sitt
- finna ekki að málfari barna og unglinga heldur hlusta á hvað þau hafa að segja
- hvetja börn og unglinga til að horfa á íslenska þætti og myndir og hlusta á hlaðvarp á íslensku
- nýta hvert tækifæri sem gefst til málörvunar, málnotkunar og umræðna um íslensku í skólum
Íslenska í skólakerfinu
Mikilvægt er að viðhorf til íslensku í skólakerfinu séu jákvæð. Marka þarf málstefnu fyrir öll skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og birta hana í almennum hluta aðalnámskrár fyrir hvert þessara skólastiga. Á öllum skólastigum skal efla jákvætt viðhorf nemenda og starfsfólks til íslensku og hvetja til hvers konar tjáningar á íslensku. Málfærni barna í leikskóla veitir vísbendingar um árangur þeirra á síðari skólastigum, meðal annars um hvernig tekst til með lestrarnám og um brotthvarf úr framhaldsskóla. Því er nauðsynlegt að grunnurinn sé góður.
Efling íslensku í leikskólum er að
- mæta þörfum allra barna fyrir málörvun á þeirra forsendum með tilliti til getu og þroska, hvetja börn til að leika sér með málið
- velta fyrir sér orðum og orðanotkun og efla orðaforða sinn
- fræða allt starfsfólk leikskóla um málþroska og máltökuskeið barna
- veita erlendu starfsfólki aðstoð við að ná tökum á íslensku.
Málfærni barna í grunnskóla leggur grunninn að síðara námi. Íslenska er ekki einvörðungu námsgrein heldur mikilvægasta verkfærið í öllu námi. Færni í íslensku stuðlar að betri lesskilningi sem er grundvallaratriði eigi börn að tileinka sér námsefni á bók. Mikilvægt er að börn á grunnskólaaldri mæti jákvæðu viðhorfi til sinnar eigin íslenskukunnáttu svo að þau verði henni ekki fráhverf og taki ensku eða önnur mál fram yfir íslensku.
Efling íslensku í grunnskólum er að
- horfast í augu við að færni í íslensku er ein af meginundirstöðum námsárangurs
- hafa hugfast að máltökuskeiði er ekki lokið þegar í grunnskóla er komið
- kenna nemendum að þekkja muninn á ritmáli og talmáli og velja málsnið eftir tilefni og aðstæðum
- veita nemendum ríkuleg tækifæri til að þjálfa málfærni sína í samræmi við aldur, getu og þroska og nýta málið til hvers kyns sköpunar
- stuðla að því að nemendur og starfsfólk mæli ekki málfærni út frá réttu og röngu heldur að nemendur geti lesið og skilið námsefnið og tjáð sig í ræðu og riti
- aðstoða erlent starfsfólk grunnskóla við að ná tökum á íslensku
Ungmenni á framhaldsskólaaldri eru enn að efla og slípa málfærni sína, prófa sig áfram í málnotkun og auka orðaforðann. Þau eru opin fyrir nýjungum og hafa gaman af að spreyta sig á málinu. Íslenska er málið sem námið fer fram á að mestu leyti og sú sérstaða þarf að njóta viðurkenningar.
Efling íslensku í framhaldsskólum er að
- veita nemendum ríkuleg tækifæri til að tala, skrifa og skapa á íslensku
- kynna nemendum fjölbreytta texta á íslensku frá ýmsum tímum og vekja áhuga þeirra á sögu tungumáls og menningar
- fræða nemendur um ýmsar hliðar tungumálsins svo sem máltöku, mállýskur, tilbrigði í máli, málvenjur og breytingar á þeim og muninn á móðurmáli og viðmiðum um mál og málsnið sem fólk tileinkar sér meðal annars í skólum
- aðstoða erlent starfsfólk framhaldsskóla við að ná tökum á íslensku.
Íslenska sem annað mál
Fjöldi barna og fullorðinna sem býr á Íslandi á ekki íslensku að móðurmáli. Afar mikilvægt er að veita þeim aðgang að samfélagi, menntakerfi, stjórnsýslu, heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfi í gegnum íslenskt mál. Samfélagið þarf allt að leggjast á eitt við að efla aðgang að íslenskukennslu fyrir innflytjendur, efla málörvun tvítyngdra barna og tryggja ungmennum með íslensku sem annað mál stuðning í skólakerfinu.
Efling íslensku sem annars máls er að
- efla málörvun og kennslu íslensku sem annars máls í leikskólum og grunnskólum og stuðla að félagslegri aðlögun barnanna í gegnum tungumálið
- sníða kennslu í íslensku máli, menningu og sögu að þörfum þessara barna
- efla stuðning við ungmenni í framhaldsskólum sem hafa ekki íslensku að móðurmáli, til dæmis með aðstoð við ritun og framsögu á íslensku, og vinna gegn brotthvarfi þeirra úr framhaldsskólum
- sníða íslenskukennslu að þörfum þessara ungmenna í sérstökum áföngum í íslensku máli, sögu og menningu
- auka framboð á námskeiðum í íslensku máli, sögu og menningu fyrir fullorðið fólk sem ekki hefur íslensku að móðurmáli
- gera því kleift að sækja námskeið í íslensku máli, sögu og menningu á vinnutíma og atvinnurekendum mögulegt að veita tækifæri til þess
- veita börnum og fullorðnum sem tala íslensku sem annað mál tækifæri til að tala íslensku sem víðast, hvort sem er í skóla eða starfi, á sviði eða í fjölmiðlum.
Unnið með málstefnu í skóla- og frístundastarfi
Verkfæri
Þegar unnið er með málstefnu er mikilvægt að allt skólasamfélagið sé virkjað og að allir hafi rödd í vinnuferlinu. Ef málstefnuvinna fer fram án þátttöku allra er ólíklegt að hún verði annað en falleg orð á blaði.
Umræður um eftirfarandi atriði þurfa að eiga sér stað meðal allra aðila skólasamfélagsins:
- Hugmyndir um og viðhorf til tungumála
- Málnotkun
- Sáttmáli um hvert eigi að stefna
Málstefnuvinna er langtímaverkefni sem lýkur í raun aldrei. Gera þarf ráð fyrir tíma í vinnu með málstefnu, sem ætti að vera fastur liður í skólastarfinu á hverju ári.
Meðvituð umræða og ígrundun tekur tíma og því er mikilvægt að gefa verkefninu svigrúm. Til að ná árangri þurfa allir að ganga í takt og sameinast um markmið. Þegar samstaða næst er hægt að ræða aðgerðir.
Hér fyrir neðan má finna þrjá glærupakka með umræðupunktum. Hægt er að nýta þá sem kveikju eða stuðningsefni fyrir umræður með ólíkum hópum. Til hliðar er viðbótarefni fyrir leiðtoga í málstefnuvinnu.
Ítarefni
Stuðningsefni fyrir vinnu með málstefnu í skólastarfi
Dæmi um málstefnur starfsstaða
Hér fyrir ofan má sjá dæmi um formlega málstefnu frá leikskólanum Ösp Þar hefur starfsfólk farið í gegnum rýni á málumhverfi leikskólans og umræður um hvert skuli stefna og tekið sameiginlega ákvörðun um hver formleg málstefna leikskólans skuli vera.
Málstefnan Aspar nýtist öllu skólasamfélaginu til þess að vinna með félagsfærni, tungumál og samskipti á einfaldan hátt. Allir vita að hvaða markmiðum er stefnt þó leiðir að markmiðum kunni að vera fjölbreyttar.
Málstefna Fellaskóla er unnin í samvinnu við nemendur. Hún vísar til aðalnámskrár grunnskóla og fjallar um málumhverfi skólans á skýran hátt þannig að öll geti vitað að hverju er stefnt hverju sinni og af hverju.
Málstefnan er endurskoðuð árlega og þá gefst tækifæri til þess að ræða hvað hefur gengið vel og hverju þarf að breyta. Enda er málumhverfi barna og ungmenna lifandi vettvangur sem tekur örum breytingum.
Hér má sjá málstefnu Stapaskóla.