Lestrarvinir

Lestrarvinir er skemmtilegt verkefni sem sameinar fjölskyldur og bókelska sjálfboðaliða sem heimsækja þær vikulega og lesa fyrir börnin. Þannig eflist lesskilningur barnanna og áhugi þeirra á lestri eykst. Sjálfboðaliðinn kemur í vikulegar heimsóknir á tuttugu vikna tímabili með nýtt og spennandi lesefni í farteskinu og kynnir fyrir barninu þann sið að lesa upphátt. Hver heimsókn er ein klukkustund. Lestrarvinurinn og barnið heimsækja svo bókasafnið saman og kynnast gleðinni sem fólgin er í yndislestri.

Lestrarvinir er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Miðju máls og læsis. Uppruni verkefnisins er hollenskur og gengur þar undir nafninu VoorleesExpress. Verkefninu var stýrt af Marloes A. Robin, frá Hollandi, fyrsta veturinn.

Sigrún Jónína Baldursdóttir sem er einn af læsisráðgjöfum Miðju máls og læsis hefur tekið virkan þátt í að halda utan um þetta verkefni. Hún nýtti tækifærið jafnframt og gerði rannsókn á innleiðingu Lestrarvina.

Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um áhrif og árangur reglulegra heimsókna Lestrarvina á áhuga og ánægju barna af bókum og upplestri.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort foreldrar og sjálfboðaliðar sem þátt tóku teldu að reglulegur upplestur og leikur með tungumálið auki áhuga barna á bókum, efli orðaforða og styðji við málþroska þeirra. Ennfremur var skoðað hvort foreldrarnir í rannsókninni teldu að heimsóknir lestrarvinarins hafi skapað og fest í sessi lestrarvenjur á heimili þeirra. Rannsóknarsniðið var eiginlegt og gögnum var safnað með óformlegum samræðum, vettvangsathugunum, spurningakönnunum og tölvupóstum. Einnig var stuðst við rannsóknardagbók.

Helstu niðurstöður sýndu að þátttakendur voru ánægðir með verkefnið og töldu bæði foreldrar og sjálfboðaliðar að börnin hefðu öðlast aukinn áhuga á bókum og eflst í málnotkun og orðaforða. Foreldrunum fannst þeir sjálfir hafa notið góðs af verkefninu og að lestur væri frekar iðkaður á heimilinu. Nokkrir foreldranna töluðu um að hafa með lestrarvininum kynnst samfélaginu á nýjan hátt og eignast vin. Sjálfboðaliðarnir töldu sig hafa fengið innsýn í ólíka menningu og siði ásamt því að tengjast fjölskyldunni vinaböndum.

Þegar horft er til niðurstaða staðlaðra prófa fyrir börn sem tala íslensku sem annað mál er ljóst, einnig út frá niðurstöðum rannsóknarinnar, að leita þarf allra leiða til að auka íslenskukunnáttu og jafna stöðu þeirra gagnvart börnum sem eiga íslensku að móðurmáli. Lestrarvinaverkefnið er einn af möguleikunum sem hægt er að nýta til að ná því markmiði.

Nánar má lesa um rannsóknina hér

Bætum lestrarkunnáttu

Fræðslufundur með Hermundi Sigmundssyni, Ph.D haldinn í Bratta Menntavísindasviði þann 5.mars 2018.

Hermundur er prófessor í lífeðlislegri sálarfræði (biological psychology) við sálfræðideild Háskólans í Þrándheimi í Noregi og prófessor við Háskólann í Reykjavík. Einnig er hann stjórnandi rannsóknarhópsins ,,Mind, brain and education.“

Hermundur talaði um í erindi sínum um það sem skiptir máli í lestrarkennslu og fjallaði um helstu rannsóknir því tengdar.

Hér má sjá upptöku frá fundinum

 

 

Að læra annað mál í skóla – hvað er sérstakt við Ísland?

Fræðslufundur með Elínu Þöll Þórðardóttur Ph.D. haldinn í Gerðubergi 12.apríl 2018.
Elín Þöll er prófessor við McGill háskólann í Kanada og í erindi sínu fjallaði hún um rannsóknir á nemendum sem tala íslensku sem annað mál
Fræðsla fyrir alla sem hafa áhuga á íslensku sem öðru máli
Samanburður við önnur lönd bendir til þess að árangur nemenda á Íslandi sé minni en árangur nemenda sem læra önnur tungumál sem annað mál.
Hvers vegna? Er íslenska sérstaklega erfitt mál? Er eitthvað sérstakt við aðstæður á Íslandi sem veldur því að erfitt er að læra annað mál í skóla? Þarf annars konar aðferðir á Íslandi en í öðrum löndum?
Farið var yfir niðurstöður nýrra rannsókna um unglinga á Íslandi sem varpa ljósi á stöðu íslenskunáms í samkeppni við ensku, áhuga unglinga á því að læra íslensku og aðgengi þeirra að tækifærum til þess. Rætt var um möguleg úrræði sem gætu aukið íslenskukunnáttu nemenda sem tala hana sem annað mál.

Upptaka frá fundinum

 

Íslenska til alls – íslensk málstefna

Árið 2008 kom út ritið Íslenska til alls – tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu og þann 12.mars 2009 samþykkti Alþingi Íslands eftirfarandi þingsályktun um íslenska málstefnu:

,,Alþingi ályktar að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu.“

,,Alþingi lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“

Hver hefur árangur okkar verið?

Íslensk málnefnd  hefur meðal annars það verkefni samkvæmt 9. grein laga nr. 40/2006 að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Má finna allar ályktanir nefndarinnar hér og er þar meðal annars verið að taka út stöðuna í stafrænum heimi, íslensku sem annað tungumál og aðalnámskrár svo eitthvað sé nefnt. Mælt er með því að skoða ályktanir aftur í tímann.

Þetta á erindi til allra þeirra sem unna íslenskri tungu og hvað þá þeirra sem koma að menntun barna.

Tungumál er gjöf – Fríða Bjarney Jónsdóttir

Öll börn læra tungumál og sum börn læra fleiri en eitt tungumál strax á unga aldri. Tungumál er gjöf er vefur fyrir leikskóla þar sem markmiðið er að efla mál og læsi barna sem læra íslensku sem annað mál.

Vefurinn er stuðningsefni fyrir leikskólakennara til að skipuleggja starfið með börnunum í leikskólanum og styðja foreldra við að efla mál og læsi barna sinna á heimavelli.

Vefinn er hægt að nýta í heilu lagi eða sem afmörkuð viðfangsefni á starfsmannafundum, deildarfundum og fræðslufundum í samstarfi þeirra sem vilja efla þekkingu sína á þessu málefni.

Orð af orði

Guðmundur Engilbertsson lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri og doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ heldur úti öflugri síðu með fræðslu um orðaforðann og eflingu hans. Síðan heitir Orð af orði.

Doktorsritgerð Sigríðar Ólafsdóttur

Meginmarkmið rannsóknar Sigríðar Ólafsdóttur 2015 var að kanna hve hratt og hvernig íslenskur orðaforði og lesskilningur þróast hjá ísl2 nemendum í fjórða bekk til áttunda bekkjar grunnskóla, einnig tengsl á milli þessara færniþátta. Þá var leitast við að skoða hvaða áhrif mállegir, félagslegir og aðrir umhverfisþættir hefðu á þróun orðaforða og lesskilnings. Að síðustu var könnuð færni barnanna í að tjá hugmyndir sínar í ritun og færa rök fyrir þeim, og hvort mætti tengja hana við orðaforða þeirra.

Doktorsritgerð Sigríðar Ólafsdóttur á Skemmunni.