Íslenska til alls – íslensk málstefna

Árið 2008 kom út ritið Íslenska til alls – tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu og þann 12.mars 2009 samþykkti Alþingi Íslands eftirfarandi þingsályktun um íslenska málstefnu:

,,Alþingi ályktar að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu.“

,,Alþingi lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“

Hver hefur árangur okkar verið?

Íslensk málnefnd  hefur meðal annars það verkefni samkvæmt 9. grein laga nr. 40/2006 að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Má finna allar ályktanir nefndarinnar hér og er þar meðal annars verið að taka út stöðuna í stafrænum heimi, íslensku sem annað tungumál og aðalnámskrár svo eitthvað sé nefnt. Mælt er með því að skoða ályktanir aftur í tímann.

Þetta á erindi til allra þeirra sem unna íslenskri tungu og hvað þá þeirra sem koma að menntun barna.

Tungumál er gjöf – Fríða Bjarney Jónsdóttir

Öll börn læra tungumál og sum börn læra fleiri en eitt tungumál strax á unga aldri. Tungumál er gjöf er vefur fyrir leikskóla þar sem markmiðið er að efla mál og læsi barna sem læra íslensku sem annað mál.

Vefurinn er stuðningsefni fyrir leikskólakennara til að skipuleggja starfið með börnunum í leikskólanum og styðja foreldra við að efla mál og læsi barna sinna á heimavelli.

Vefinn er hægt að nýta í heilu lagi eða sem afmörkuð viðfangsefni á starfsmannafundum, deildarfundum og fræðslufundum í samstarfi þeirra sem vilja efla þekkingu sína á þessu málefni.

Sögugrunninn – Guðrún Sigursteinsdóttir

Sögugrunnurinn er námsgagn sem hannað er til að fá börn til að tjá sig, segja frá eða segja sögu. Hægt er að nota hann með börnum frá tveggja ára aldri. Í Sögugrunninum eru á annað hundrað mynda og orðmyndir sem hægt er að nota til að tengja talmál og ritmál og vinna með uppbyggingu málsins þ.e. merkingarfræði, setningarfræði og málfræði. Sögugrunninum fylgja stafasett en þau gefa tækifæri til að brjóta orðmyndirnar niður í hljóð.

 

Sögugrunnurinn er hugsaður sem opið námsefni og því geta notendur bætt við myndum og orðmyndum sem þeim finnst vanta til að efla börnin í sögugerðinni. Margar leiðir eru færar til að segja sögur með aðstoð myndanna en mikilvægt er að velja myndir og þar með efnivið í sögu allt eftir aldri og þroska barnanna.

Yngstu börnin skoða gjarnan myndirnar og setja nöfn á þær án þess að segja eiginlega sögu heldur verður sagan þeirra röð stuttra atburða. Eldri börn vilja gjarnan velja margar myndir í sína sögu en mikilvægt er að kennarinn hafi í huga sögubyggingu.

Þegar unnið er með Sögugrunninn í grunnskólum er gott að hvetja börnin til að skrá sjálf sögurnar sínar og þá geta orðmyndir, sem fylgja með, hjálpað til við ritunina.

Hér má nálgast Kennsluleiðbeiningarnar.