Rafræn brandarabók Kringlumýrar

Í tilefni barnamenningarhátíðar var formleg útgáfa á brandarabók Kringlumýrar. Hún er í rafrænu formi og inniheldur safn af bröndurum. Bæði gamalt efni og frumsamið frá börnum af öllum 8 frístundarheimilum Kringlumýrar.

Grunnhugmyndin er sú að safna saman bröndurum sem hentugir eru fyrir börn í formi sem auðvelt er að nálgast. Öllum er frjálst að hlaða niður bókinni og nýta. Við munum bæta og uppfæra bókina áfram því um lifandi plagg er að ræða.

Það er kjánalegt hversu oft við rekumst á ljóta brandara í brandarabókum fyrir börn. Þar sem grínið felst í áfengisneyslu, kynlífi, rasisma, fordómum eða viðlíka hlutum. Þá eru hafnfirðingabrandarar og ljóskubrandarar fullkomlega þar í hópi. Oft má samt taka slíka brandara og breyta þeim með því að sleppa þeim þætti sem er „ljótur“. Ef að þið heyrið ykkur segja í huganum „ekkert má nú lengur“ þá skulið þið loka það frá öllu dagsljósi því það á ekki heima í þessari umræðu.

Af hverju er slæmt að nota orðið Hafnfirðingur? Það er ekkert endilega voðalega slæmt þegar við tökum fyrir hóp af Íslendingum eftir búsetu en það smitast engu að síður alveg jafn mikið og brandarar um hvað gyðingar eru nískir eða múslimar vondir eða konur kunna ekki að bakka og svo framvegis. Við erum að skapa hugmyndaheim í kringum hóp einstaklinga sem hefur ekkert unnið til sín. Þetta er samtal sem þarf óneitanlega að taka við nokkra krakkanna. Af hverju má ég ekki segja að allar ljóskur séu heimskar og geti ekki andað nema hafa „anda inn, anda út“ í eyrunum allan daginn? Það er einfaldlega af því að ljóshærðu manneskjunni þarna gæti liðið illa yfir því. Við eigum að taka tillit til allra í opinberu rými. Það er ekki þjáning að þurfa að breyta einu orði í brandara, það getur verið þjáning að hlusta á alla hlægja yfir sjálfsmynd manns ítrekað.

En er þá ekki ljótt að segja krakkinn? Nei, það er líka í fullkomlega góðu lagi að segja foreldrið, kennarinn, frístundaleiðbeinandinn, forstöðumaður, fullorðni einstaklingurinn og svo framvegis. Það eru einfaldlega ekki eins gildishlaðinn orð og hafa ekki orðið þess valdandi að hópur verði fyrir ofbeldi.

Hér má nálgast fyrstu rafrænu brandarabók Kringlumýrar.

Dagur íslenskrar tungu – hugmyndabanki

Inn á vef Stjórnarráðs Íslands má finna hugmyndabanka fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þar er að finna margskonar verkefni sem skemmtilegt er að nýta á degi íslenskrar tungu.

FB-síður sem geta gagnast í starfi leik- og grunnskólakennara

Hér fyrir neðan má finna slóðir á FB-síður sem geta gagnast kennurum. Þessi listi er alls ekki tæmandi.

Vefurinn Fræðsluskot

Vefurinn Fræðsluskot er fyrir önnum kafna kennara í fjölmenningarlegu umhverfi. Þarna eru í boði hagnýt verkefni fyrir alla kennara. Meðal annars má finna Orðaþrennu vikunnar fyrir eitt skólaár, en tilgangur þess verkefnis er að auðga orðaforða og efla lesskilning nemenda.

Samstarf leikskóla og grunnskóla í Víkurhverfi Grafarvogi

Frá árinu 2001 hefur samstarf á milli leikskólans Nes/Hamra og grunnskólans Kelduskóla/Vík blómstrað. Samstarfið er mótað út frá hugmyndafræði Söguaðferðarinnar (Storyline), þar sem meðal annars er unnið með söguramma.

Á haustin er fundur með þeim kennurum sem koma að samstarfinu til að leggja línurnar. Unnið er með tvo söguramma yfir veturinn. Á haustönn er unnið með kvæði, þjóðsögur eða ævintýri og er mismunandi eftir árum hvað valið er. Hér má finna dæmi um söguramma um Bakkabræður.

Á vorönn er alltaf unninn sami sögurammi, en hann heitir Að byrja í grunnskóla og má nálgast hann hér. Inn í þennan ramma er markvisst verið að kynna fyrir börnunum grunnskólann í heild sinni með því að flétta vinnu þeirra inn í íþróttir, list- og verkgreinar. Þau hitta sérgreinakennarana og vinna undir handleiðslu þeirra.

Orðaforði barnanna er auðgaður með því að taka fyrir lykilorð, orðatiltæki, málshætti og samheiti. Unnið er með bókstafi og ritun. Lögð er áhersla á að börnin tjái sig fyrir framan hóp, vinni saman og geti sett sig í spor annarra.

Við lok hvers söguramma er ákveðin uppskeruhátíð þar sem börnin kynna fyrir foreldrum sínum vinnu sína. Þá er jafnvel sett upp sýning á verkum barnanna og þau setja upp leikrit.

Endurmatsfundir eru alltaf við lok hvers söguramma og á vorin er tekin saman skýrsla.

Heiða Sigurðardóttir leikskólakennari og deildarstjóri í Hömrum hefur haldið utan um þetta samstarf fyrir hönd leikskólans frá upphafi og er því hlaðin reynslu.

María Haraldsdóttir sérkennari í Vík heldur utan um þetta samstar fyrir hönd grunnskólans og tekur á móti börnunum þar.

Það er samdóma álit þeirra sem koma að þessu samstarfi að það sé árangursríkt að mynda þessa samfellu á milli skólastiga. Börnin mæta örugg og hugrökk í 1.bekk og foreldrarnir eru mjög jákvæðir og ánægðir með samstarfið.

Eftir að Hamrar og Bakki sameinuðust undir nafninu Nes, þá hafa Bakkabörnin tekið þátt í verkefninu.

 

Norrænt verkefnasafn í náttúrufræði fyrir leikskóla

Markmiðið með verkefnasafninu er að hvetja til og styðja við náttúrufræðimenntun í leikskólum. Þetta byggir á sameiginlegu norrænu þróunarverkefni um náttúrufræðimenntun leikskólakennara sem hófst árið 2011. 

Í verkefnasafni þessu eru 10 mismunandi verkefni sem hafa verið prófuð í leikskólum. Það eru fimm um eðlisfræði, eitt um eðlis- og efnafræði og fjögur um líffræði.

Hér má nálgast Norræna verkefnasafnið í náttúrufræði fyrir leikskóla.

 

Vefurinn SignWiki Ísland

Vefurinn SignWiki Ísland er táknmálsorðabók og þekkingarbrunnur fyrir íslenskt táknmál.

Handbók um verkfæri Byrjendalæsis frá Akranesi

Ásta Egilsdóttir og Guðrún Guðbjarnardóttir, grunnskólakennarar á Akranesi, tóku saman Að fanga fjölbreytileikann –  Handbók um verkfæri Byrjendalæsis.

Hugmyndin á bak við gerð handbókarinnar var meðal annars sú að kennarar geti prentað út hvern kafla fyrir sig og safnað sér bæði fræðilegu og hagnýtu efni sem fjallar um það sama, þannig að úr verði góð og persónuleg handbók fyrir hvern og einn.

Þær Ásta og Guðrún hafa gefið leyfi til að birta handbókina hér og er öllum velkomið að nýta sér þessa frábæru vinnu.

 Höfundar vilja benda á að prentun verður skýrust í svart-hvítu.

 

Leikgleði – 50 leikir

Menntamálastofnun hefur gefið út bókina Leikgleði – 50 leikir og er hún öllum aðgengileg.

Í formálanum segir höfundurinn Sabína Steinunn Halldórsdóttir m.a.: ,,Leikir eru ein mikilvægasta og besta aðferð sem völ er á til að vinna að lýðheilsu einstaklinga. Heilsa skiptist í líkamlega, andlega og félagslega heilsu og má vinna með alla þessa þrjá þætti samhliða og á sama tíma í gegnum leik.“

Má ég vera með?

Í frístundaheimilinu Eldflauginni er markviss félagsfærniþjálfun fyrir börn sem þurfa á því að halda. Börnin hittast í smærri hópum einu sinni í viku yfir tíu vikna tímabil. Þar er farið í ákveðna grunnfærni eins og að hlusta á aðra og skiptast á í samræðum, yfir í vináttu- og leiðtogafærni.

Unnur Tómasdóttir forstöðumaður í frístundaheimilinu Eldflauginni kynnti þetta verkefni á uppskeruhátíð frístundamiðstöðvanna í Reykjavík – Höfuð í bleyti 2019 – glærukynninguna má finna hér.