Búnaðarbanki SFS

Inn á heimasíðu Búnaðarbankans SFS má finna fullt af skemmtilegu dóti til að prófa ýmsar nýjungar til að auðga námið… eða eins og kemur fram á síðunni: ,,Gersemar og þarfaþing, skoðaðu, pantaðu og fáðu að láni – fullt af skemmtilegu dóti fyrir kennslustofuna.“ Þetta er hugsað fyrir leik- , grunn- og frístundastarf.

Dagblöð í skólum

Morgunblaðið heldur úti vef sem ber nafnið Dagblöð í skólum, þar segir meðal annars:

Með því að nota dagblöð í kennslu teljum við að námið verði fjölbreytt og lifandi og þar ættu allir að finna viðfangsefni við sitt hæfi.

Markmið með því að nota dagblöð í kennslu eru eftirfarandi:

  • Að venja nemendur við dagblaðalestur.
  • Að þjálfa nemendur í lestri á mismunandi textum (auglýsingum, fréttagreinum o.fl.)
  • Að venja nemendur við að segja skipulega frá því sem þeir hafa lesið, bæði munnlega og skriflega.
  • Að nemendur temji sér gagnrýna hugsun, spyrji spurninga og leiti svara.
  • Að upplýsa nemendur um margvísleg stílbrigði sem notuð eru við ritun blaðagreina.
  • Að kynna nemendum ritunarferli blaðagreina.
  • Að þjálfa nemendur í ritun margvíslegra dagblaðatexta.
  • Að þjálfa nemendur í að hlusta á aðra.
  • Að nemendur kynnist vinnuferli við útgáfu dagblaðs.

Vefurinn Upplýsingatækni og söguaðferðin

Á vefnum Upplýsingatækni og söguaðferðin eru kennsluhugmyndir og leiðbeiningar fyrir stafræna efnisgerð.

Þarna eru átta verkefni í upplýsingatækni og stafrænni miðlun sem tengjast jafnmörgum sögurömmum.

Fyrst er fjallað aðeins um söguaðferðina. Undir síðum sem heita 5. bekkur, 6. bekkur og 7. bekkur eru ákveðnir sögurammar kynntir. Jafnframt eru hugmyndir að verkefnum þar sem reynir á stafræna miðlun og leiðbeiningar um vinnu í forritum.

Þetta er ætlað nemendum í 5. – 7. bekk en getur nýst öðrum aldurshópum.

Vefurinn PAXEL123

Vefurinn PAXEL123 er ætlaður börnum á leikskólaaldri og nemendum á grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði.

Markmiðið er að efla læsi í stærðfræði og móðurmáli með örvandi tölvuleikjum.

Vefurinn Snillismiðjur

Vefurinn Snillismiðjur er afrakstur Sprotasjóðsverkefnisins Vexa – ,,Maker“ hönnunarsmiðjur í grunnskólum sem unnið var 2017 – 2018.

Á síðunni segir meðal annars:

,,Makerspace gengur undir ýmsum nöfnum hérlendis s.s. snjallsmiðja, hönnunarsmiðja, snillismiðja, gerver eða tilraunaverkstæði.

Makerspace er allskonar. Hugmyndin byggir á eflingu sköpunar og uppbyggingu á hæfni sem kennd er við 21. öldina. Hönnun og sköpun á ekki bara heima í sérstökum kennslustundum, það á heima í öllu námi.

Makerspace snýst um hugarfar og tilgang verkefnanna, um að læra af mistökum og að læra að vinna eftir ákveðnu hönnunarferli.“

Tákn með tali

Inn á vef Menntamálastofnunar má finna bókina Tákn með tali 2. Þetta er rafbók sem jafnframt er hægt að hlaða niður sem pdf skjal.

Tákn með tali 2 er orðabók með táknmyndum sem notaðar eru í boðskiptakerfinu TMT. Orðabókinni er skipt í tvo hluta, fyrri hlutinn er kynning á uppbyggingu og tilgangi TMT og ráðleggingar um innlögn og þjálfun. Síðari hlutinn er táknsafnið sjálft.

Eflum lesskilning

Bergljót Vilhelmína Jónsdóttir setti saman glærupakka sem ber nafnið Eflum lesskilning og er hún þar að kynna meistaraverkefni sitt. Þarna koma fram gagnlegar upplýsingar um vinnu með lesskilning sem vert er að skoða.

Sautján ástæður fyrir barnabókum

Sænska barnabókaakademían setti saman bæklinga á nokkrum tungumálum, þar sem tilteknar eru sautján ástæður fyrir barnabókum. Lestrarvinir fengu leyfi til að þýða bæklinga og nota að vild.

Lestrarvina bæklingarnir eru eftifarandi:

Inn á heimasíðu sænsku akademíunnar er að finna bæklingana á fleiri tungumálum.