Lestrarvinir

Lestrarvinir er skemmtilegt verkefni sem sameinar fjölskyldur og bókelska sjálfboðaliða sem heimsækja þær vikulega og lesa fyrir börnin. Þannig eflist lesskilningur barnanna og áhugi þeirra á lestri eykst. Sjálfboðaliðinn kemur í vikulegar heimsóknir á tuttugu vikna tímabili með nýtt og spennandi lesefni í farteskinu og kynnir fyrir barninu þann sið að lesa upphátt. Hver heimsókn er ein klukkustund. Lestrarvinurinn og barnið heimsækja svo bókasafnið saman og kynnast gleðinni sem fólgin er í yndislestri.

Lestrarvinir er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Miðju máls og læsis. Uppruni verkefnisins er hollenskur og gengur þar undir nafninu VoorleesExpress. Verkefninu var stýrt af Marloes A. Robin, frá Hollandi, fyrsta veturinn.

Sigrún Jónína Baldursdóttir sem er einn af læsisráðgjöfum Miðju máls og læsis hefur tekið virkan þátt í að halda utan um þetta verkefni. Hún nýtti tækifærið jafnframt og gerði rannsókn á innleiðingu Lestrarvina.

Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um áhrif og árangur reglulegra heimsókna Lestrarvina á áhuga og ánægju barna af bókum og upplestri.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort foreldrar og sjálfboðaliðar sem þátt tóku teldu að reglulegur upplestur og leikur með tungumálið auki áhuga barna á bókum, efli orðaforða og styðji við málþroska þeirra. Ennfremur var skoðað hvort foreldrarnir í rannsókninni teldu að heimsóknir lestrarvinarins hafi skapað og fest í sessi lestrarvenjur á heimili þeirra. Rannsóknarsniðið var eiginlegt og gögnum var safnað með óformlegum samræðum, vettvangsathugunum, spurningakönnunum og tölvupóstum. Einnig var stuðst við rannsóknardagbók.

Helstu niðurstöður sýndu að þátttakendur voru ánægðir með verkefnið og töldu bæði foreldrar og sjálfboðaliðar að börnin hefðu öðlast aukinn áhuga á bókum og eflst í málnotkun og orðaforða. Foreldrunum fannst þeir sjálfir hafa notið góðs af verkefninu og að lestur væri frekar iðkaður á heimilinu. Nokkrir foreldranna töluðu um að hafa með lestrarvininum kynnst samfélaginu á nýjan hátt og eignast vin. Sjálfboðaliðarnir töldu sig hafa fengið innsýn í ólíka menningu og siði ásamt því að tengjast fjölskyldunni vinaböndum.

Þegar horft er til niðurstaða staðlaðra prófa fyrir börn sem tala íslensku sem annað mál er ljóst, einnig út frá niðurstöðum rannsóknarinnar, að leita þarf allra leiða til að auka íslenskukunnáttu og jafna stöðu þeirra gagnvart börnum sem eiga íslensku að móðurmáli. Lestrarvinaverkefnið er einn af möguleikunum sem hægt er að nýta til að ná því markmiði.

Nánar má lesa um rannsóknina hér