Hvaða reglur gilda um móttöku nýrra nemenda?
Öll börn eiga rétt á menntun og öll börn eru jöfn skv. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.
…án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.
Í endurskoðaðri Aðalnámskrá grunnskóla frá 2021 er meðal annars nýr kafli um móttöku, kafli 7.13 Móttaka nemenda með fjölbreyttan menningar- og tungmálabakgrunn. Þar stendur:
Skólum ber samkvæmt 16. gr. laga um grunnskóla að fylgja móttökuáætlun, sinni eigin eða sveitarfélagsins, sem byggir á bakgrunni nemenda, tungumálafærni og fyrri skólagöngu. Auk þess að taka mið af hæfni á ýmsum námssviðum og styrkleikum hvers og eins. Leggja skal fyrir stöðumat á þessum þáttum á sterkasta tungumáli nemandans. Í móttökuviðtali skal lögð áhersla á heildræna móttöku nemenda og foreldra. Þar gefst nemanda og foreldrum tækifæri til að upplýsa skólann um þarfir, menningu og stöðu nemandans. Námsáætlun skal byggð á niðurstöðum þeirra upplýsinga og stöðumatsins.
Teymi um móttöku barna
Til þess að tryggja farsæla móttöku frá upphafi, þurfa allir innviðir skólans að virka sem skyldi. Afar mikilvægt er að innan skólans skapist þekking og áhugi á málefnum innflytjenda, sem og þekking á tví- og fjöltyngi og hvernig best verði stutt við þarfir barna með fjölbreyttan tungumálabakgrunn og ólíka reynslu.
Til þess að tungumálaumhverfi skólans verði sem allra best þurfa allir starfsmenn í skóla- og frístundastarfi að líta á það sem sitt verkefni að styðja við íslenskunám barnsins og temja sér að grípa hvert tækifæri sem gefst til þess að nota tungumálið til uppbyggjandi samskipta.
Það skiptir máli að innan hvers skóla starfi teymi um fjölmenningu sem ber ábyrgð á að hlúa að skólastarfi í þágu barna með fjölbreyttan tungumálabakgrunn og skapa jákvæð viðhorf til verkefna sem þeim tengjast. Hlutverk fjölmenningarteyma eru m.a. er að taka faglegar ákvarðanir sem varða nám nýrra nemenda af erlendum uppruna, afla þeirrar þekkingar sem skortir innan skólans og tryggja að allir starfsmenn fái viðeigandi upplýsingar og fræðslu.
Móttaka í frístundastarf
Þegar tekið er á móti nýjum nemendum á Íslandi skal alltaf kalla til aðila frá frístundaheimili eða félagsmiðstöð.
Kynna skal gjaldfrjálst frístundastarf fyrir börn í 1.-4. bekk fyrir foreldrum og leggja skal áherslu á aukið samstarf skóla, hverfamiðstöðva við móttöku nýrra nemenda á Íslandi.
Tryggja þarf að upplýsingar úr stöðumatsviðtölum berist frá skóla inn í frístundastarf. Þær upplýsingar eru dýrmætar til að styðja við óformlegt nám barnsins í frístundastarfi.
Velkomin í hverfið
Haustið 2018 kom út skýrsla starfshóps um móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í skóla- og frístundastarfi hjá Reykjavíkurborg. Í skýrslunni er fjallað um hvernig auka þarf markvissan stuðning við nýkomin börn og fjölskyldur þeirra og tilgreindar aðgerðir til að bæta móttöku og aðlögun nýrra nemenda af erlendum uppruna í grunn- og leikskólum og voru tillögurnar samþykktar á fundi skóla- og frístundaráðs í nóvember 2018. Ein tillagnanna sem samþykktar voru hjá SFR gengur út að bæta mat á námsstöðu barna við komuna til landsins og að stöðumat, sem hefur verið þýtt og staðfært á íslensku, verði notað í þeim tilgangi
Stöðumat nýrra nemenda
Eftir breytingar á Aðalnámskrá grunnskóla árið 2021 ber skólum að leggja stöðumat fyrir nýja nemendur á Íslandi. Sjá kafla 7.13 Móttaka nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Hér má finna frekari upplýsingar um stöðumat nýrra nemenda á Íslandi.
Nýr í bekknum
Aðstoð túlka
Íslenskuver