Börn þurfa að heyra orð oft til að læra þau örugglega og ,,eigna” sér þau.
Kennarinn þarf að endurtaka orðið í fjölbreyttum aðstæðum og hvetja börnin til hins sama.
Til að orðaforðinn aukist og sé gagnlegur þarf að kenna hann í tengslum við önnur orð og hugmyndir. Þannig dýpkar skilningurinn á orðinu og það eru meiri líkur á að orðið sé notað.
Með því að nota aðferð eins og orðatöfra er hægt að nota sjónrænar aðferðir sem jafnframt fela í sér endurtekningar.
Orðatöfrar eru settir á veggspjald (má einnig vera sem einstaklingsverkefni á litlu blaði). Fyrir miðju er sett mynd af orðinu sem á að vinna með.
Síðan er það að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:
- Lýstu hlutnum, hugtakinu
- Hvernig notum við hlutinn, hugtakið?
- Hvar geymum/sjáum/notum við hlutinn, hugtakið?
- Hver hefur séð/líkar/myndi nota/þekkir þennan hlut, hugtak?
- Eitthvað annað sem ykkur dettur í hug varðandi hlutinn, hugtakið?