Orðaforðanum er oft skipt upp í þrjú þrep, sem er grunnorðaforði, millilag og efsta lag.

Grunnorðaforðinn eru þau orð sem við kynnumst strax á unga aldri, þar sem þau eru allt í kringum okkur. Þetta eru orð eins og klukka, glaður, hús, borða, hlaupa, rauður og mjúkur, svo eitthvað sé nefnt.

Millilag orðaforðans eru þau orð sem við þurfum að þekkja. Það er þessi orðaforði sem skiptir sköpun þegar börn fara að lesa til að læra (lesa sér til gagns og gamans). Þetta eru orð eins og meta, smjúga, drungalegur, útdráttur, tignarlegur, glæfralegur, svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt tilheyra millilaginu orðatiltæki og málshættir.

Efsta lag orðaforðans eru orð sem við ættum að þekkja, en eru sérhæfðari og lærast í tengslum við ákveðin viðfangsefni. Dæmi um orð í efsta lagi eru kjarni, himnuflæði, tónsvið, jarðhræringar, flekaskil og sólkerfi.