Færslur

Borgarbókasafnið

Starfsemi Borgarbókasafnsins er fjölbreytt og af mörgu að taka þegar kemur að safnkosti, aðstöðu og viðburðum.
Allir viðburðir á bókasafninu eru ókeypis og bókasafnskort eru ókeypis fyrir yngri en 18 ára en kosta fyrir fullorðna. Innifalið í kortinu er aðgangur að Rafbókasafninu.

Ekki er þörf á að eiga bókasafnskort til að mæta á viðburði eða lesa, spila, læra/vinna eða bara hanga á bókasafninu.

Aðstaða og safnkostur

Borgarbókasafnið er á átta stöðum víðsvegar um borgina og geta korthafar bókað aðstöðu og tæki sér að kostnaðarlausu.

Á öllum átta söfnunum er að finna bækur á íslensku og ensku en í Grófinni og Gerðubergi er jafnframt að finna bækur á ýmsum öðrum tungumálum fyrir börn, ungmenni og fullorðna.

Á söfnunum er einnig að finna gott úrval borðspila, tímarita, tónlistar og myndefnis, til að nota á staðnum eða fá lánað heim.

Korthafar geta hvoru tveggja, fengið lánað efni á einu safni og skilað því á einhverju öðru, og einnig fengið safnkost sendan frá öðru safni, á sitt hverfissafn. Það er gert inni á mínum síðum eða með aðstoð starfsfólks í afgreiðslunni.

Viðburðir

Meðal fastra viðburða er spjöllum með hreim, fjölskyldumorgnar og hannyrðastundir en auk þess er einnig boðið upp á fjölbreytt föndur og fræðslu, sýningar, smásmiðjur, fjölmenningarlegar fjölskyldustundir, „grænt bókasafn“ og ótalmargt fleira.

Einnig er öllum velkomið að halda sögustund á bókasafninu, á hvaða tungumáli sem er, í Söguhorninu.

Staðsetning

Borgarbókasafnið er á átta stöðum víðsvegar um Reykjavík. Hægt er að skila safnkosti (bókum, spilum, tónlist o.s.frv.)á öðru safni en því sem hann var fenginn að láni. Einnig er hægt að fá safnkost sendan frá öðru safni, á sitt hverfissafn. Það er gert inni á mínum síðum eða með aðstoð starfsfólks í afgreiðslunni.

Grófin  (miðbænum)
Kringlunni   (á 1.hæð við Borgarleikhúsið)
Sólheimar  (í Laugardalnum)
Spönginni  (í Grafarvogi)
Gerðuberg  (Í Breiðholti)
Úlfarsárdalur  (Í sama húsið og Dalslaug)
Kléberg (inngangur bakatil, nær sjónum)

 

Norræni bókagleypirinn

Á vefsíðu Norræna bókagleypisins má finna stuðningsefni í formi kennsluleiðbeininga með norrænum myndabókum. Leiðbeiningunum er ætlað að styðja við mál- og lesskilning barna og dýpka upplifun barnsins af myndabókinni. Leiðbeiningarnar nýtast bæði fagfólki skóla sem og foreldrum. En markhópurinn eru börn sem lesið er fyrir, börn sem eru að stíga sín allra fyrstu skref í lestri og börn sem farin eru að lesa sjálf. Markmið verkefnisins er að hvetja til lesturs á norrænum barnabókum, að kynna norrænar barna- og unglingabækur fyrir fullorðnum lesendum og börnum og gera þær aðgengilegri.

Kennsluleiðbeiningarnar eru til á öllum tungumálum norðurlandanna, þar með töldum samísku og grænlensku.

Hér má leita eftir bókum og umfjöllunarefni.

Athugið að bækurnar sjálfar má nálgast á flestum bókasöfnum.

Bókabíó

Í leikskólanum Fífuborg er haldið bókabíó í hverjum mánuði. Þá bjóða elstu börnin öðrum börnum í leikskólanum í „bíó“. Heil bók er skönnuð inn og sett upp í glærusýningu. Kennarinn les bókina og skemmtilegast er þegar öll börnin geta verið með á bíósýningunni og tekið þátt í lifandi frásögn með texta og mynd. Hér má sjá nánari lýsingu á verkefninu

Sögugrunninn – Guðrún Sigursteinsdóttir

Sögugrunnurinn er námsgagn sem hannað er til að fá börn til að tjá sig, segja frá eða segja sögu. Hægt er að nota hann með börnum frá tveggja ára aldri. Í Sögugrunninum eru á annað hundrað mynda og orðmyndir sem hægt er að nota til að tengja talmál og ritmál og vinna með uppbyggingu málsins þ.e. merkingarfræði, setningarfræði og málfræði. Sögugrunninum fylgja stafasett en þau gefa tækifæri til að brjóta orðmyndirnar niður í hljóð.

 

Sögugrunnurinn er hugsaður sem opið námsefni og því geta notendur bætt við myndum og orðmyndum sem þeim finnst vanta til að efla börnin í sögugerðinni. Margar leiðir eru færar til að segja sögur með aðstoð myndanna en mikilvægt er að velja myndir og þar með efnivið í sögu allt eftir aldri og þroska barnanna.

Yngstu börnin skoða gjarnan myndirnar og setja nöfn á þær án þess að segja eiginlega sögu heldur verður sagan þeirra röð stuttra atburða. Eldri börn vilja gjarnan velja margar myndir í sína sögu en mikilvægt er að kennarinn hafi í huga sögubyggingu.

Þegar unnið er með Sögugrunninn í grunnskólum er gott að hvetja börnin til að skrá sjálf sögurnar sínar og þá geta orðmyndir, sem fylgja með, hjálpað til við ritunina.

Hér má nálgast Kennsluleiðbeiningarnar.