Vefurinn Upplýsingatækni og söguaðferðin

Á vefnum Upplýsingatækni og söguaðferðin eru kennsluhugmyndir og leiðbeiningar fyrir stafræna efnisgerð.

Þarna eru átta verkefni í upplýsingatækni og stafrænni miðlun sem tengjast jafnmörgum sögurömmum.

Fyrst er fjallað aðeins um söguaðferðina. Undir síðum sem heita 5. bekkur, 6. bekkur og 7. bekkur eru ákveðnir sögurammar kynntir. Jafnframt eru hugmyndir að verkefnum þar sem reynir á stafræna miðlun og leiðbeiningar um vinnu í forritum.

Þetta er ætlað nemendum í 5. – 7. bekk en getur nýst öðrum aldurshópum.

Vefurinn PAXEL123

Vefurinn PAXEL123 er ætlaður börnum á leikskólaaldri og nemendum á grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði.

Markmiðið er að efla læsi í stærðfræði og móðurmáli með örvandi tölvuleikjum.

Vefurinn Snillismiðjur

Vefurinn Snillismiðjur er afrakstur Sprotasjóðsverkefnisins Vexa – ,,Maker“ hönnunarsmiðjur í grunnskólum sem unnið var 2017 – 2018.

Á síðunni segir meðal annars:

,,Makerspace gengur undir ýmsum nöfnum hérlendis s.s. snjallsmiðja, hönnunarsmiðja, snillismiðja, gerver eða tilraunaverkstæði.

Makerspace er allskonar. Hugmyndin byggir á eflingu sköpunar og uppbyggingu á hæfni sem kennd er við 21. öldina. Hönnun og sköpun á ekki bara heima í sérstökum kennslustundum, það á heima í öllu námi.

Makerspace snýst um hugarfar og tilgang verkefnanna, um að læra af mistökum og að læra að vinna eftir ákveðnu hönnunarferli.“

Tákn með tali

Inn á vef Menntamálastofnunar má finna bókina Tákn með tali 2. Þetta er rafbók sem jafnframt er hægt að hlaða niður sem pdf skjal.

Tákn með tali 2 er orðabók með táknmyndum sem notaðar eru í boðskiptakerfinu TMT. Orðabókinni er skipt í tvo hluta, fyrri hlutinn er kynning á uppbyggingu og tilgangi TMT og ráðleggingar um innlögn og þjálfun. Síðari hlutinn er táknsafnið sjálft.

Eflum lesskilning

Bergljót Vilhelmína Jónsdóttir setti saman glærupakka sem ber nafnið Eflum lesskilning og er hún þar að kynna meistaraverkefni sitt. Þarna koma fram gagnlegar upplýsingar um vinnu með lesskilning sem vert er að skoða.

Sautján ástæður fyrir barnabókum

Sænska barnabókaakademían setti saman bæklinga á nokkrum tungumálum, þar sem tilteknar eru sautján ástæður fyrir barnabókum. Lestrarvinir fengu leyfi til að þýða bæklinga og nota að vild.

Lestrarvina bæklingarnir eru eftifarandi:

Inn á heimasíðu sænsku akademíunnar er að finna bæklingana á fleiri tungumálum.

 

Sögugrunninn – Guðrún Sigursteinsdóttir

Sögugrunnurinn er námsgagn sem hannað er til að fá börn til að tjá sig, segja frá eða segja sögu. Hægt er að nota hann með börnum frá tveggja ára aldri. Í Sögugrunninum eru á annað hundrað mynda og orðmyndir sem hægt er að nota til að tengja talmál og ritmál og vinna með uppbyggingu málsins þ.e. merkingarfræði, setningarfræði og málfræði. Sögugrunninum fylgja stafasett en þau gefa tækifæri til að brjóta orðmyndirnar niður í hljóð.

 

Sögugrunnurinn er hugsaður sem opið námsefni og því geta notendur bætt við myndum og orðmyndum sem þeim finnst vanta til að efla börnin í sögugerðinni. Margar leiðir eru færar til að segja sögur með aðstoð myndanna en mikilvægt er að velja myndir og þar með efnivið í sögu allt eftir aldri og þroska barnanna.

Yngstu börnin skoða gjarnan myndirnar og setja nöfn á þær án þess að segja eiginlega sögu heldur verður sagan þeirra röð stuttra atburða. Eldri börn vilja gjarnan velja margar myndir í sína sögu en mikilvægt er að kennarinn hafi í huga sögubyggingu.

Þegar unnið er með Sögugrunninn í grunnskólum er gott að hvetja börnin til að skrá sjálf sögurnar sínar og þá geta orðmyndir, sem fylgja með, hjálpað til við ritunina.

Hér má nálgast Kennsluleiðbeiningarnar.