Frá árinu 2001 hefur samstarf á milli leikskólans Nes/Hamra og grunnskólans Kelduskóla/Vík blómstrað. Samstarfið er mótað út frá hugmyndafræði Söguaðferðarinnar (Storyline), þar sem meðal annars er unnið með söguramma.
Á haustin er fundur með þeim kennurum sem koma að samstarfinu til að leggja línurnar. Unnið er með tvo söguramma yfir veturinn. Á haustönn er unnið með kvæði, þjóðsögur eða ævintýri og er mismunandi eftir árum hvað valið er. Hér má finna dæmi um söguramma um Bakkabræður.
Á vorönn er alltaf unninn sami sögurammi, en hann heitir Að byrja í grunnskóla og má nálgast hann hér. Inn í þennan ramma er markvisst verið að kynna fyrir börnunum grunnskólann í heild sinni með því að flétta vinnu þeirra inn í íþróttir, list- og verkgreinar. Þau hitta sérgreinakennarana og vinna undir handleiðslu þeirra.
Orðaforði barnanna er auðgaður með því að taka fyrir lykilorð, orðatiltæki, málshætti og samheiti. Unnið er með bókstafi og ritun. Lögð er áhersla á að börnin tjái sig fyrir framan hóp, vinni saman og geti sett sig í spor annarra.
Við lok hvers söguramma er ákveðin uppskeruhátíð þar sem börnin kynna fyrir foreldrum sínum vinnu sína. Þá er jafnvel sett upp sýning á verkum barnanna og þau setja upp leikrit.
Endurmatsfundir eru alltaf við lok hvers söguramma og á vorin er tekin saman skýrsla.
Heiða Sigurðardóttir leikskólakennari og deildarstjóri í Hömrum hefur haldið utan um þetta samstarf fyrir hönd leikskólans frá upphafi og er því hlaðin reynslu.
María Haraldsdóttir sérkennari í Vík heldur utan um þetta samstar fyrir hönd grunnskólans og tekur á móti börnunum þar.
Það er samdóma álit þeirra sem koma að þessu samstarfi að það sé árangursríkt að mynda þessa samfellu á milli skólastiga. Börnin mæta örugg og hugrökk í 1.bekk og foreldrarnir eru mjög jákvæðir og ánægðir með samstarfið.
Eftir að Hamrar og Bakki sameinuðust undir nafninu Nes, þá hafa Bakkabörnin tekið þátt í verkefninu.