Færslur

Forsíða Bildetema

Myndaþema (Bildetema)

Búið er að uppfæra og endurvinna Bildetema myndaorðabókina á íslensku. Myndaorðabókin byggir á ljósmyndum og er þemaskipt. Hvert orð er tekið upp á íslensku og hægt er að hlusta á orðin.

Margir kaflanna skiptast í undirhugtök. Til dæmis inniheldur kaflinn um Manneskjur og líkama nokkra undirkafla.

Þegar valinn er kaflinn: Líffæri í líkamanum birtast hugtök sem eiga heima þar undir.

 

Myndaorðabókin er á nokkrum tungumálum og fleiri munu bætast við. Notendur geta valið sín uppáhalds tungumál og hoppað á milli þeirra með auðveldum hætti. Eftir að tungumál hefur verið stjörnumerkt birtist það efst í rauðu stikunni og þá er hægt að stökkva á milli tungumála með einum smelli.

 

Norræni bókagleypirinn

Á vefsíðu Norræna bókagleypisins má finna stuðningsefni í formi kennsluleiðbeininga með norrænum myndabókum. Leiðbeiningunum er ætlað að styðja við mál- og lesskilning barna og dýpka upplifun barnsins af myndabókinni. Leiðbeiningarnar nýtast bæði fagfólki skóla sem og foreldrum. En markhópurinn eru börn sem lesið er fyrir, börn sem eru að stíga sín allra fyrstu skref í lestri og börn sem farin eru að lesa sjálf. Markmið verkefnisins er að hvetja til lesturs á norrænum barnabókum, að kynna norrænar barna- og unglingabækur fyrir fullorðnum lesendum og börnum og gera þær aðgengilegri.

Kennsluleiðbeiningarnar eru til á öllum tungumálum norðurlandanna, þar með töldum samísku og grænlensku.

Hér má leita eftir bókum og umfjöllunarefni.

Athugið að bækurnar sjálfar má nálgast á flestum bókasöfnum.

Bókabíó

Í leikskólanum Fífuborg er haldið bókabíó í hverjum mánuði. Þá bjóða elstu börnin öðrum börnum í leikskólanum í „bíó“. Heil bók er skönnuð inn og sett upp í glærusýningu. Kennarinn les bókina og skemmtilegast er þegar öll börnin geta verið með á bíósýningunni og tekið þátt í lifandi frásögn með texta og mynd. Hér má sjá nánari lýsingu á verkefninu

Orð í gluggum

Orð í gluggum by Helga Agustsdottir

Heiða talmeinafræðingur, sem rekur fésbókarsíðuna Blaðrað á biðstofum, kom með þá frábæru hugmynd að setja orð í glugga líkt og í vor voru settir bangsar út í glugga.

Við á MML gripum hugmyndina um orðafjársjóðsleitina og settum saman nokkur verkefnablöð sem hægt er að nýta við fjársjóðsleitina.

Orð í gluggum – verkefni

Möguleikarnir á því að nýta orðin eru nánast óendanlegir og hægt er að útfæra fjársjóðsleitina eftir aldri barna og þroska.

 

Fyrir foreldra:

  • Tölum saman um orðin
  • Veltum þeim fyrir okkur
  • Vekjum athygli á jákvæðum orðum og hvað falleg orð geta haft mikla þýðingu
  • Æfum okkur að nota orðin í setningu
  • Samvera og spjall

Fyrir kennara:

  • Vinnum með orðaforða á fjölbreyttan máta
  • Búum til setningar með orðunum
  • Nýtum orðin sem kveikju að ritunarverkefnum
  • Söfnum upplýsingum og veltum þeim fyrir okkur
  • Ræðum um líðan og vekjum athygli á þeim hugrenningatengslum sem vakna út frá orðum
  • Söfnum samheitum
  • Nýtum orðin í orðflokkagreiningu
  • Vinnum með lýðræði og kjósum til dæmis:
    • Frumlegasta orðið
    • Skrýtnasta orðið
    • Orð vikunnar
  • Tengjum orðaforðavinnu við nærumhverfið

Hér er áskorunin á fleiri tungumálum:

 

Frístundalæsi