Leiðsagnarnám – Nanna Kristín Christiansen

Í kaflanum Fjölbreyttar matsaðferðir í aðalnámskrá grunnskóla, 2011 segir: Kennarar þurfa að hjálpa börnum og ungmennum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig miðar í átt að þeim. Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu.

John Hattie og Shriley Clarke sem eru virtir sérfræðingar í leiðsagnarmati (formative assessment) segja að leiðsagnarmat snúist um að kennarinn notar endurgjöf/leiðsögn til að styðja nemandann í átt að námsmarkmiðum sínum frá þeim stað sem hann er á.

Kennarinn og nemendur meta sífellt stöðu og framfarir nemenda en kennarinn nýtir niðurstöðurnar til að rýna í eigin kennslu og taka ákvarðanir um næstu skref. Með leiðsagnarmati er megin áherslan á það sem gert er við niðurstöður matsins fremur en á matið sjálft, öfugt við það sem einkennir lokamat.

Skólar í Reykjavík sem eru að þróa leiðsagnarmat hafa kosið að nota orðið leiðsagnarnám til að undirstrika að þunginn er á námið fremur en á matið.

Lykil hugtakið í leiðsagnarnámi er endurgjöf/leiðsögn. Forsendur endurgjafar/leiðsagnar er að nemandinn geti nýtt sér hana til að nálgast markmið sitt. Rannsóknir sýna að til að endurgjöfin/leiðsögnin hafi þau áhrif sem að er stefnt þarf námsmenningin að einkennast af trausti nemenda til kennara, ríkum væntingum kennara til allra nemenda, getublöndun, virkri samvinnu, viðurkenningu á því að mistök eru eðlilegur hluti náms, vaxandi hugarfari þ.á.m. þrautseigju og skilningi nemenda á því hvernig nám fer fram. Námsmenningin einkennist jafnframt af því að nemendur læra saman og hver af öðrum, þess vegna eru samræður áberandi og kennarinn vekur athygli á því sem vel er gert og því sem má læra af.

Þegar unnið er með leiðsagnarnám þurfa nemendur alltaf að þekkja námsmarkmið sín og vita hvað þeir eiga að læra í hverri kennslustun (lotu). Til að þeir geti unnið verkefni sín eins og til er ætlast þurfa þeir einnig að vita hvernig gott verkefni á að vera.

Skólaárið 2017 – 2018 var unnið þróunarverkefni um leiðsagnarmat og skráðu 17 grunnskólar sig til leiks. Þó svo að formlegri þróunarvinnu sé lokið þá er þetta verkefni enn í gangi og alltaf nýir grunnskólar að bætast í hópinn.

Þróunarskýrsluna Leiðsagnarmat er málið má finna hér.

Búnaðarbanki SFS

Inn á heimasíðu Búnaðarbankans SFS má finna fullt af skemmtilegu dóti til að prófa ýmsar nýjungar til að auðga námið… eða eins og kemur fram á síðunni: ,,Gersemar og þarfaþing, skoðaðu, pantaðu og fáðu að láni – fullt af skemmtilegu dóti fyrir kennslustofuna.“ Þetta er hugsað fyrir leik- , grunn- og frístundastarf.

Dagblöð í skólum

Morgunblaðið heldur úti vef sem ber nafnið Dagblöð í skólum, þar segir meðal annars:

Með því að nota dagblöð í kennslu teljum við að námið verði fjölbreytt og lifandi og þar ættu allir að finna viðfangsefni við sitt hæfi.

Markmið með því að nota dagblöð í kennslu eru eftirfarandi:

 • Að venja nemendur við dagblaðalestur.
 • Að þjálfa nemendur í lestri á mismunandi textum (auglýsingum, fréttagreinum o.fl.)
 • Að venja nemendur við að segja skipulega frá því sem þeir hafa lesið, bæði munnlega og skriflega.
 • Að nemendur temji sér gagnrýna hugsun, spyrji spurninga og leiti svara.
 • Að upplýsa nemendur um margvísleg stílbrigði sem notuð eru við ritun blaðagreina.
 • Að kynna nemendum ritunarferli blaðagreina.
 • Að þjálfa nemendur í ritun margvíslegra dagblaðatexta.
 • Að þjálfa nemendur í að hlusta á aðra.
 • Að nemendur kynnist vinnuferli við útgáfu dagblaðs.

Safnakassar

Þjóðminjasafnið lánar safnakassa til fræðslu og til notkunar í skólastarfi. Þetta er kærkomin viðbót þegar verið er að vinna með þjóðsögur, gamla tímann, gömul vinnubrögð og landnámið, svo eitthvað sé nefnt.

Í boði eru sex mismunandi kassar:

 • Baðstofukassi
 • Tóvinnukassi
 • Matarkassi
 • Leikjakassi
 • Landnámskassi
 • Ljósmyndakassi

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Þjóðminjasafnsins.

Vefurinn Leikur og nám með LEGO

Vefurinn Leikur og nám með LEGO er leiðsagnarvefur um legóþjarka og vélræna högun fyrir kennara og nemendur á yngsta og miðstigi grunnskóla.

Á vefnum segir meðal annars:

,,Leikur, samskipti, sköpun og verkleg vinna í námi hjálpa okkur að nálgast námsefni, kalla fram áhuga og virkja okkur í þekkingarleit. Legókubbar bjóða upp á gagnlega og skemmtilega viðbót í kennslu. Þeir veita okkur kærkomið og einstakt tækifæri til að sinna sköpunar- og tækniþáttum á frumlegan og lærdómsríkan hátt með því að sameina hug og hönd, hugsun og framkvæmd. Vélræn högun og myndræn forritun, tölvustýring og sjálfvirkni, tækni og vísindi, verkfræði, eðlisfræði og stærðfræði, leikur og samskipti, sköpun og verkleg vinna. Þetta hljómar vel. Góða skemmtun!“

 

Vefurinn Upplýsingatækni og söguaðferðin

Á vefnum Upplýsingatækni og söguaðferðin eru kennsluhugmyndir og leiðbeiningar fyrir stafræna efnisgerð.

Þarna eru átta verkefni í upplýsingatækni og stafrænni miðlun sem tengjast jafnmörgum sögurömmum.

Fyrst er fjallað aðeins um söguaðferðina. Undir síðum sem heita 5. bekkur, 6. bekkur og 7. bekkur eru ákveðnir sögurammar kynntir. Jafnframt eru hugmyndir að verkefnum þar sem reynir á stafræna miðlun og leiðbeiningar um vinnu í forritum.

Þetta er ætlað nemendum í 5. – 7. bekk en getur nýst öðrum aldurshópum.

Vefurinn PAXEL123

Vefurinn PAXEL123 er ætlaður börnum á leikskólaaldri og nemendum á grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði.

Markmiðið er að efla læsi í stærðfræði og móðurmáli með örvandi tölvuleikjum.

Vefurinn Snillismiðjur

Vefurinn Snillismiðjur er afrakstur Sprotasjóðsverkefnisins Vexa – ,,Maker“ hönnunarsmiðjur í grunnskólum sem unnið var 2017 – 2018.

Á síðunni segir meðal annars:

,,Makerspace gengur undir ýmsum nöfnum hérlendis s.s. snjallsmiðja, hönnunarsmiðja, snillismiðja, gerver eða tilraunaverkstæði.

Makerspace er allskonar. Hugmyndin byggir á eflingu sköpunar og uppbyggingu á hæfni sem kennd er við 21. öldina. Hönnun og sköpun á ekki bara heima í sérstökum kennslustundum, það á heima í öllu námi.

Makerspace snýst um hugarfar og tilgang verkefnanna, um að læra af mistökum og að læra að vinna eftir ákveðnu hönnunarferli.“

Tákn með tali

Inn á vef Menntamálastofnunar má finna bókina Tákn með tali 2. Þetta er rafbók sem jafnframt er hægt að hlaða niður sem pdf skjal.

Tákn með tali 2 er orðabók með táknmyndum sem notaðar eru í boðskiptakerfinu TMT. Orðabókinni er skipt í tvo hluta, fyrri hlutinn er kynning á uppbyggingu og tilgangi TMT og ráðleggingar um innlögn og þjálfun. Síðari hlutinn er táknsafnið sjálft.

Eflum lesskilning

Bergljót Vilhelmína Jónsdóttir setti saman glærupakka sem ber nafnið Eflum lesskilning og er hún þar að kynna meistaraverkefni sitt. Þarna koma fram gagnlegar upplýsingar um vinnu með lesskilning sem vert er að skoða.