Flæðilestur

Í leikskólanum Hulduheimum er flæðilestur með yngstu börnunum – en hvað er flæðilestur?

Markmiðið með flæðilestri er að barnið læri að njóta bóka. Þetta á vel við á ungbarnadeildum leikskóla og jafnvel fyrir eldri börn.

  • Flæðilestur er hluti af hópastarfi.
  • Hópurinn samanstendur af kennara og fjórum börnum.
  • Valin er bók sem hentar þessum unga aldri.
  • Bókin er lesin fyrst fyrir allan hópinn.
  • Síðan er sama bókin lesin fyrir hvert barn.
  • Barnið situr í fangi og stjórnar bókalestrinum.
  • Spjallað er um bókina um leið og lesið er.
  • Hin börnin sitja með og hlusta eða eru að leika sér, það er þeirra val.
  • Þannig skiptist kennarinn á að lesa sömu bókina fyrir hvert barn í hópnum.

 

Í flæðilestri heyrir hvert barn sömu bókina lesna aftur og aftur. Fyrst þegar er lesið fyrir hópinn og einnig þegar verið er að lesa bókina með því og hinum börnunum. Endurtekningin er hluti af námi barnsins.

Fingraþula

Hver kannast ekki við Fingraþuluna?

Þumalfingur er mamma sem var mér vænst og best.
Vísifingur er pabbi sem gaf mér rauðan hest.
Langatöng er bróðir sem býr til falleg gull.
Baugfingur er systir sem prjónar sokka úr ull.
Litlifingur er barnið sem leikur sér að skel.
Litli pínu anginn sem dafnar svo vel.

Hér er allt fólkið svo fallegt og nett.
Fimm eru á bænum ef talið er rétt.
Ósköp væri gaman hér í þessum heim,
ef öllum kæmi saman eins vel og þeim.

Fríða Bjareny Jónsdóttir var með fyrirlestur sem fjallaði um orðaforða og samskipti, með áherslu á að skoða muninn á samskiptaorðaforða og dýpri orðaforða. Eftir fyrirlesturinn lagði hún verkefni fyrir hópinn til að vinna með út í leikskólunum. Hún gaf okkur leyfi til að birta það hér með von um að sem flestir nýti sér það.

Vefurinn Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka

Vefurinn Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka er vettvangur þar sem foreldrar, kennarar og aðrir sem vinna með börnum geta nálgast fjölbreytt námsefni. Þarna inni eru skjöl til að hlaða niður með fjölbreyttu námsefni fyrir börn.

Hlín Magnúsdóttir sérkennari á yngsta stigi í grunnskóla er hér að deila því námsefni sem hún hefur útbúið sjálf. Jafnframt er hún með facebook-síðuna Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka (http://www.facebook.com/kennsluadferdir) eða Instragram fjolbreytt_kennsla (http://www.instagram.com/fjolbreytt_kennsla).

Munið hann Sleipni sem er lestrarfélagi barnanna

Bókmenntaborgin hefur gert Sleipnir, hinn áttfætta goðsagnahest, að lestrarfélaga sínum og allra barna. Sleipnir tekur þátt í verkefnum sem snúa að lestrarhvatningu og skapandi starfi barna og ungmenna. Nánari umfjöllun má finna hér:  Sleipnir – lestrarfélaga barnanna. Þar er fjallað um hugmyndina á bak við verkefnið, bækur um Sleipnir og kynningarmyndbönd.

Áfram íslenska – staða og framtíð íslenskukennslu í skólum landsins

Þann 1. apríl 2019 skipulagði mennta- og menningarmálaráðuneytið ráðstefnu um íslenskukennslu í skólum landsins í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Kennarasambands Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Þeir sem ekki komust á ráðstefnuna geta horft á upptöku af henni inn á vef stjórnarráðs Íslands, undir nafninu Áfram íslenska.

Ráðstefnugestir fengu meðal annars bókamerki sem á stóð. ,,Lesum, skrifum, tölum, sköpum, grínumst, hrópum, hvíslum, snöppum, rýnum, hugsum, smíðum ný orð og fögnum á okkar máli. Allt er hægt á íslensku.“

Lesið í leik

Lesið í leik er læsisstefna leikskóla. Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 segir: ,,Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta.“ Þar kemur einnig fram að eitt af meginmarkmiðum uppeldis og kennslu í leikskóla skuli vera: ,,að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku.“

Ekki leita langt yfir skammt

Víða í grunnskólum er til mikið magn af  kennarahandbókum. Margir gamlir gullmolar leynast þar innan um sem vert er að dusta rykið af. Oft má finna góðar hugmyndir og leiðbeiningar. Hvernig væri að fara í fjársjóðsleit?

Frístundalæsi

Búnaðarbanki SFS

Inn á heimasíðu Búnaðarbankans SFS má finna fullt af skemmtilegu dóti til að prófa ýmsar nýjungar til að auðga námið… eða eins og kemur fram á síðunni: ,,Gersemar og þarfaþing, skoðaðu, pantaðu og fáðu að láni – fullt af skemmtilegu dóti fyrir kennslustofuna.“ Þetta er hugsað fyrir leik- , grunn- og frístundastarf.

Dagblöð í skólum

Morgunblaðið heldur úti vef sem ber nafnið Dagblöð í skólum, þar segir meðal annars:

Með því að nota dagblöð í kennslu teljum við að námið verði fjölbreytt og lifandi og þar ættu allir að finna viðfangsefni við sitt hæfi.

Markmið með því að nota dagblöð í kennslu eru eftirfarandi:

  • Að venja nemendur við dagblaðalestur.
  • Að þjálfa nemendur í lestri á mismunandi textum (auglýsingum, fréttagreinum o.fl.)
  • Að venja nemendur við að segja skipulega frá því sem þeir hafa lesið, bæði munnlega og skriflega.
  • Að nemendur temji sér gagnrýna hugsun, spyrji spurninga og leiti svara.
  • Að upplýsa nemendur um margvísleg stílbrigði sem notuð eru við ritun blaðagreina.
  • Að kynna nemendum ritunarferli blaðagreina.
  • Að þjálfa nemendur í ritun margvíslegra dagblaðatexta.
  • Að þjálfa nemendur í að hlusta á aðra.
  • Að nemendur kynnist vinnuferli við útgáfu dagblaðs.