Norrænt verkefnasafn í náttúrufræði fyrir leikskóla

Markmiðið með verkefnasafninu er að hvetja til og styðja við náttúrufræðimenntun í leikskólum. Þetta byggir á sameiginlegu norrænu þróunarverkefni um náttúrufræðimenntun leikskólakennara sem hófst árið 2011. 

Í verkefnasafni þessu eru 10 mismunandi verkefni sem hafa verið prófuð í leikskólum. Það eru fimm um eðlisfræði, eitt um eðlis- og efnafræði og fjögur um líffræði.

Hér má nálgast Norræna verkefnasafnið í náttúrufræði fyrir leikskóla.

 

Vefurinn SignWiki Ísland

Vefurinn SignWiki Ísland er táknmálsorðabók og þekkingarbrunnur fyrir íslenskt táknmál.

Handbók um verkfæri Byrjendalæsis frá Akranesi

Ásta Egilsdóttir og Guðrún Guðbjarnardóttir, grunnskólakennarar á Akranesi, tóku saman Að fanga fjölbreytileikann –  Handbók um verkfæri Byrjendalæsis.

Hugmyndin á bak við gerð handbókarinnar var meðal annars sú að kennarar geti prentað út hvern kafla fyrir sig og safnað sér bæði fræðilegu og hagnýtu efni sem fjallar um það sama, þannig að úr verði góð og persónuleg handbók fyrir hvern og einn.

Þær Ásta og Guðrún hafa gefið leyfi til að birta handbókina hér og er öllum velkomið að nýta sér þessa frábæru vinnu.

 Höfundar vilja benda á að prentun verður skýrust í svart-hvítu.

 

Leikgleði – 50 leikir

Menntamálastofnun hefur gefið út bókina Leikgleði – 50 leikir og er hún öllum aðgengileg.

Í formálanum segir höfundurinn Sabína Steinunn Halldórsdóttir m.a.: ,,Leikir eru ein mikilvægasta og besta aðferð sem völ er á til að vinna að lýðheilsu einstaklinga. Heilsa skiptist í líkamlega, andlega og félagslega heilsu og má vinna með alla þessa þrjá þætti samhliða og á sama tíma í gegnum leik.“

Má ég vera með?

Í frístundaheimilinu Eldflauginni er markviss félagsfærniþjálfun fyrir börn sem þurfa á því að halda. Börnin hittast í smærri hópum einu sinni í viku yfir tíu vikna tímabil. Þar er farið í ákveðna grunnfærni eins og að hlusta á aðra og skiptast á í samræðum, yfir í vináttu- og leiðtogafærni.

Unnur Tómasdóttir forstöðumaður í frístundaheimilinu Eldflauginni kynnti þetta verkefni á uppskeruhátíð frístundamiðstöðvanna í Reykjavík – Höfuð í bleyti 2019 – glærukynninguna má finna hér.

 

Söguland – stærðfræði

Guðbjörg Pálsdóttir dósent í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið HÍ hefur haldið margskonar námskeið sem tengjast stærðfræði og eitt af þeim er Stærðfræði og barnabækur. Eins og nafnið gefur til kynna er verið að benda á hvað stærðfræði leynist víða og hve auðvelt er að leika sér með sögurnar. Guðbjörg bendir á Söguland sem góðan grunn í vinnu með stærðfræði utan hefðbundinnar kennslu. Í Sögulandi fer kennarinn í hlutverk og börnin taka virkan þátt. Notuð er einhver kveikja eins og til dæmis bréf frá sögupersónu sem er í vanda… getum við hjálpað?

Hérna má sjá myndbandið KS1 Drama in Maths – Drama for Learning til að kynnast nánar Sögulandi.

Er virk málstefna á þínum starfsstað?

Málstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt 19.maí 2018. Þar segir meðal annars: ,,Vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, er lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þar er íslenska í öndvegi og skal hún vera til fyrirmyndar í samræmi við þingsályktun um íslenska málstefnu frá 2009 og lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011. Í sömu lögum er kveðið á um að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skuli sjá til þess að hún sé notuð (2. og 5. gr.).“

Málstefnuna má finna í heild sinni hér. Málstefnan gildir á öllum starfsstöðum Reykjavíkurborgar og á starfsfólk að taka mið af henni í störfum sínum og samskiptum.

Vefurinn Nemendur með íslensku sem annað mál

Helga Hauksdóttir kennsluráðgjafi á Akureyri heldur úti vefnum Nemendur með íslensku sem annað mál. Þar er hún búin að safna gagnlegu efni frá ýmsum aðilum, m.a. Reykjavíkurborg, og flokka það niður á aðgengilegan máta.

Gefðu 10 – Ekki bíða, byrjaðu strax!

Gefðu 10 er einföld aðferð ætluð til þess að auka samræðu og samskipti við fjöltyngd börn sem eru að læra íslensku sem annað mál. Hér má nálgast bækling sem fjallar nánar um þessa aðferð.

Barnakosningar í Laugarseli

Barnakosningar eru skemmtilegar og mikilvægar leiðir til að kenna börnum að þau hafi áhrif á umhverfi sitt. Í Laugarseli hefur verið notast við ýmsar aðferðir til að virkja lýðræði þannig að börnin geti komið sínum skoðunum á framfæri.

Reglulegar kosningar, þar sem allir í frístundaheimilinu hafa kosningarétt, er ein af aðferðunum sem unnið er með.

Lilja Marta Jökulsdóttir var með málstofukynningu, á uppskeruhátíð frístundamiðstöðvanna í Reykjavík Höfuð í bleyti 2019, þar sem hún kynnti nánar kosningarnar.

Kosningaferlið má sjá hér (birt með leyfi LMJ).

 

Laugarsel er fyrsta réttindafrístundaheimilið í Reykjavík og jafnframt fyrsta í heiminum ásamt Krakkakoti í Garðabæ.

Unnið er með barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og þá alveg sérstaklega eftirfarandi greinar:

  • 2.grein Jafnræði – bann við mismunun
  • 3.grein Það sem er barninu fyrir bestu
  • 6.grein Réttur til lífs og þroska
  • 12.grein Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif