Hagnýt ráð (í vinnslu)
Færslur
Endurbætt Myndaþema (Bildetema)
Búið er að uppfæra og endurvinna Bildetema myndaorðabókina á íslensku. Myndaorðabókin byggir á ljósmyndum og er þemaskipt. Hvert orð er tekið upp á íslensku og hægt er að hlusta á orðin.
Margir kaflanna skiptast í undirhugtök. Til dæmis inniheldur kaflinn um Manneskjur og líkama nokkra undirkafla.
Þegar valinn er kaflinn: Líffæri í líkamanum birtast hugtök sem eiga heima þar undir.
Myndaorðabókin er á nokkrum tungumálum og fleiri munu bætast við. Notendur geta valið sín uppáhalds tungumál og hoppað á milli þeirra með auðveldum hætti. Eftir að tungumál hefur verið stjörnumerkt birtist það efst í rauðu stikunni og þá er hægt að stökkva á milli tungumála með einum smelli.
Norræni bókagleypirinn
Á vefsíðu Norræna bókagleypisins má finna stuðningsefni í formi kennsluleiðbeininga með norrænum myndabókum. Leiðbeiningunum er ætlað að styðja við mál- og lesskilning barna og dýpka upplifun barnsins af myndabókinni. Leiðbeiningarnar nýtast bæði fagfólki skóla sem og foreldrum. En markhópurinn eru börn sem lesið er fyrir, börn sem eru að stíga sín allra fyrstu skref í lestri og börn sem farin eru að lesa sjálf. Markmið verkefnisins er að hvetja til lesturs á norrænum barnabókum, að kynna norrænar barna- og unglingabækur fyrir fullorðnum lesendum og börnum og gera þær aðgengilegri.
Kennsluleiðbeiningarnar eru til á öllum tungumálum norðurlandanna, þar með töldum samísku og grænlensku.
Hér má leita eftir bókum og umfjöllunarefni.
Athugið að bækurnar sjálfar má nálgast á flestum bókasöfnum.
Stoðir með QR kóðum fyrir ólæsa á íslenskt stafróf
Þegar unnið er með ólæsum nemendum og foreldrum, sama hvort þau eru byrjendur í lestri á latneskt stafróf eða koma til landsins með rofna eða litla skólagöngu að baki, er hægt að nýta tæknina til þess að auðvelda íslensku- og lestrarnám.
Hér er dæmi um hvernig hægt er að taka saman stoðir fyrir unglinga sem koma til landsins án þekkingar á latneska stafrófinu. Hér hafa myndir og QR-kóðar verið sett saman í skjal til að gera efnið aðgengilegra.
stoðir – fyrstu skrefin fyrir persneskumælandi eftir Miðju máls og læsis – prentútgáfa á pdf – farsi
Stoðir – fyrstu skrefin fyrir arabískumælandi eftir Miðju máls og læsis Prentútgáfa á pdf – arabíska
Ég og íslenska – orðalisti með myndum
Miðja máls og læsis er með myndaorðasafn í vinnslu handa yngri börnum sem vilja tjá sig en vantar ennþá orð og setningar á íslensku tungumáli. Orðasafnið er hannað sem stuðningur við samskipti fyrir börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku tungumáli. Orðasafnið er ekki námsefni en hægt er að styðjast við það í einföldum samskiptum um daginn og veginn.
Leyfilegt er að nýta orðasafnið að hluta eða sem heild í skólastarfi, í frístund og sem viðbótarheimanám í samvinnu við heimili barnsins. Hægt er að skrifa þýðingar á sterkasta tungumáli barnsins við myndir með aðstoð foreldra eða fjöltyngdra starfsmanna skólans.
Athugið að orðalistinn er í sífelldri þróun. Ábendingar um orðasafnið má senda á mml (hjá) reykjavik.is.
Prentútgáfur á pdf
Ég tjái tilfinningar – íslenska
Ég tjái tilfinningar – íslenska og filippseyska
Fræðsluefni fyrir foreldra tví- og fjöltyngdra barna
PEaCH er stytting á enska heitinu Preserving and promoting Europe’s cultural and linguistic heritage through empowerment of bilingual children and families, sem á íslensku væri mögulega hægt að þýða sem: Evrósk tungumálaarfleifð og menning sett í fókus með valdeflingu tvítyngdra barna og fjölskyldna.
Ítarleg handbók frá PEaCH um máluppeldi.
Hér fyrir neðan má finna stutt fræðslumyndbönd á ensku um hvernig foreldrar geta stutt við málþroska tví- og fjöltyngdra barna.
Gæðamálörvun í daglegu starfi
Hér má finna veggspjald um gæðamálörvun í leikskólastarfi sem hægt er að prenta út og hengja upp. Best er að hengja veggspjaldið upp á stöðum þar sem margir hafa það fyrir augunum. Tilvalið er að prenta út aukaeintak og hengja í fataklefann þar sem foreldrar geta líka lesið þó veggspjaldið sé hannað með starfsfólk leikskóla í huga.
Leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt tvítyngi í skóla- og frístundastarfi
Mennta- og menningarráðuneytið hefur gefið út Leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt tvítyngi í skóla- og frístundastarfi. Í leiðarvísinum er að finna yfirgripsmikla umfjöllun um fjöltyngi barna og ungmenna. Sérstaklega er fjallað um hlutverk skóla- og frístundastarfs í tengslum við fjölbreytt málumhverfi barna en einnig er fjallað sérstaklega um tungumálastefnur og hlutverk foreldra. Frá blaðsíðu 19 er bent á ýmsar hagnýtar leiðir til þess að styðja við fjölbreytt tungumál í skólastarfi. Aftast má finna ábendingar til foreldra. Leiðarvísirinn hefur verið þýddur á pólsku og ensku.
Leidarvisir um studning vid modurmal_islenska
Námsefni í íslensku fyrir nemendur sem lesa og skrifa erlend tungumál
Á skólavefnum er til efni fyrir byrjendur í íslensku sem eru læsir á nokkur erlend tungumál. Efnið var ókeypis í fyrstu en nú þarf aðgang að skólavefnum til þess að nálgast það. Flestir skólar í Reykjavík eiga aðgang og efnið er til á pdf svo einfalt er að prenta það út.
Efnið er til á pólsku, litháísku, ensku, spænsku, filippseysku og úkraínsku. Fleiri tungumál eru væntanleg.